133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki verið algjörlega sammála hæstv. ráðherra um að það sé algerlega víst að ekkert ólöglegt hafi farið fram. Þessir dómsúrskurðir hafa ekki verið rannsakaðir. Það er ekki eins og þessi mál hafi farið fyrir Hæstarétt. Einn dómari kveður upp úrskurðinn hverju sinni og niðurstaðan er sú sem raun ber vitni. Það er auðvitað farið eftir lögunum hvað það varðar.

En hverjar voru þær grunsemdir sem lágu til grundvallar? Við vitum það ekki. Við vitum það hins vegar að það var aldrei ákært í málunum og við vitum að það var aldrei dæmt í þeim.

Þess vegna er ástæða til þess að menn beiti aðferðum sem eru þá fólgnar í því að rannsaka málin. Það verður ekki endilega gert með þeim gögnum sem liggja fyrir. Heldur með því að ræða við það fólk sem tók þátt í þessu og er enn ofan jarðar. Því hefur nú þegar fækkað dálítið mikið og það getur kannski verið að það þurfi að nýta tímann ef það á í rauninni að fá botn í sum af þessum málum.

Hvað var í tunnunni, hæstv. menntamálaráðherra?