133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins svona til að byrja með þá er það ekki rétt að stjórnmálamenn og ráðherrar hafi ekki komið að ákvörðunum um símhleranir. Hér segir um símhleranirnar 6. apríl 1949, í ritgerð Guðna Jóhannessonar, sagnfræðings, með leyfi forseta:

„Bæði sakadómari og símamálastjóri virðast líka hafa gengið tregir til frekari símahlerana og vilja takmarka þær. Miðvikudaginn 6. apríl var enn settur lögregluréttur. Að þessu sinni virtust ráðherrar eða lögregluyfirvöld ekki hafa átt frumkvæði að því að Valdimar Stefánsson kvæði upp nýjan úrskurð vegna nokkuð breyttra aðstæðna við hlustanir frá því að síðasti úrskurður var kveðinn upp þann 2. þess mánaðar að þessu sinni.“

Þeir sem hafa lesið þessar ritgerðir sagnfræðinganna velkjast ekki í vafa um að stjórnvöld komu að ákvörðuninni. Það er nú bara staðreynd. Það voru sums staðar símhleranir án þess að kveðinn væri upp dómsúrskurður. Það var frá fjórða áratugnum í tengslum við vinnudeilur. Eftir því sem ég man best þá hafa verið dæmi um það einnig frá þessum tíma í tengslum við atburðina 1949, þó að ég skuli ekkert staðhæfa um það. En ég man ekki betur en svo hafi verið. Ég skal ekkert staðhæfa um það að þessu sinni.

Hæstv. menntamálaráðherra Íslands flutti alveg ótrúlega ræðu hér áðan. Vísar í tíðarandann fyrr á tíð, að við verðum að reyna að skilja hann. Vilji menn skilja símhleranir þá verði menn að skilja tíðarandann frá fyrri tíma. Hæstv. ráðherra hefði getað verið að flytja hér ræðu á því herrans ári 1949. Hér var bara kaldastríðstal eins og það gerist hatrammast.

Hæstv. ráðherra segir á þá leið að hér sé sagnfræðileg niðurstaða. Það séu sagnfræðingar og fræðimenn sem hafi komið að nefndinni og þetta sé sagnfræðileg niðurstaða. Ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðherra segði það.

Ég stóð í þeirri trú, og það standa nefndarmenn einnig, þar með talið sagnfræðingarnir þar innan borðs, að þetta sé ekki sagnfræðileg niðurstaða heldur ábending um það hvernig sagnfræðingar skuli fá aðgang að þessum gögnum til að vinna úr þeim. Það var okkur sagt á fundi nefndarinnar og þingflokksformanna þegar skýrsla nefndarinnar var kynnt. Það var engum blöðum um það að fletta.

Síðan er hitt að hæstv. ráðherra segir að það sæti undrun hve lítið hafi verið hlerað hér á landi. Það er búið að upplýsa um að heimili fólks voru hleruð. Heimili alþingismanna, heimili blaðamanna. Heimili fólks úr menningarlífi. Heimili forsvarsmanna úr verkalýðshreyfingunni voru hleruð og eins og hér hefur komið fram við umræðuna og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti m.a. á, það var enginn fundinn sekur að því er sagt er, í þessum pólitísku hlerunum.

Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um hleranirnar 1949. Við erum að tala um hleranir í tengslum við heimsókn fulltrúa fasistastjórnar í Grikklandi. Við erum að tala um hleranir í tengslum við heimsóknir tveggja Bandaríkjaforseta. Við erum að tala um hleranir í tengslum við landhelgisdeiluna þegar símar alþingismanna voru hleraðir og hæstv. ráðherra segir undrum sæta að ekki hafi verið meira hlerað.

Ég man ekki hvernig það var orðað, en við hefðum ekki haft burði til þess. Við hefðum ekki haft burði til að hlera meira. Hvað er verið að tala um? Fleiri þingmenn? Að hlera meira hjá verkalýðshreyfingunni? Hlera fleiri einstaklinga í menningarlífinu eða þeirra sem tóku þátt í baráttu gegn fasistastjórninni? Hleranirnar í tengslum við heimsókn fasistaforingjans 1968 voru á heimilum fólks sem hýstu þessa lýðræðissinna sem voru komnir hingað til lands til að mótmæla fasistastjórninni. Og hæstv. ráðherra segir að það sæti undrun að það skuli ekki hafa verið hlerað meira.

Heyr á endemi. Hvert erum við eiginlega komin? Það er verið að réttlæta pólitískar hleranir og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ráðherra í ríkisstjórn er í rauninni að harma það og lýsa undrun yfir því að það skuli ekki hafa verið stundaðar meiri njósnir, meiri hleranir. Síðan gætum við farið inn í þessa atburði fyrri tíðar. Það er alveg rétt. Við skulum reyna að skilja hvað var að gerast árið 1949 þegar okkur er sagt, eða látið í það skína, að mótmælendur á Austurvelli 30. mars 1949 hafi verið að reyna að kollvarpa lýðræðisþjóðfélagi á Íslandi.

Í aðdragandanum, 27. mars, var boðað til fundar við Miðbæjarskólann í Reykjavík. Það var Þjóðvarnarfélagið. Það var fulltrúaráð verkalýðsfélaganna. Og viti menn. Það var Félag ungra framsóknarmanna. Þá voru enn þá til róttækir ungir framsóknarmenn sem vildu varðveita og styrkja sjálfstætt og frjálst Ísland utan hernaðarbandalaga. Hver var krafan á þeim fundi? Krafan var sú að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu Íslands í NATO. Það var krafa fólksins. Og það var krafa fólksins þegar efnt var til fundar hér á Austurvelli hinn 30. mars 1949.

Hvað gerist þá? Þá birta talsmenn, forustumenn þriggja flokka hér á þingi, stjórnarflokka, áskorun til almennings að fjölmenna á Austurvelli. Til hvers? Ég spyr. Það var safnað hér varðsveitum, svokölluðum hvítliðum, í Alþingishúsið, í þinghús Íslendinga. Lögreglulið var hér á neðri hæðinni. Ég var að tala við gamlan lögreglumann um daginn sem kom að máli við mig þegar menn voru að rifja upp þessa atburði. Hann sagðist muna eftir því hvernig þeir voru nokkrir teknir til hliðar sem voru taldir hafa eitthvað vafasamar pólitískar skoðanir og þeim var haldið eftir inni í húsinu á meðan hinir voru sendir út með vopn.

Við skulum þá varpa ljósi á alla myndina. Hvað gerist í kjölfarið? Það er efnt til réttarhalda yfir fólki sem tók þátt í fjöldafundinum hér fyrir utan. Mér hefur fundist sannfærandi eftir að lesa vitnaleiðslurnar og yfirheyrslurnar að þarna hafi verið beitt ljúgvitnum og það sé svartur blettur á íslenskum dómstólum þegar þessir einstaklingar voru sviptir ærunni eða reynt að svipta þá ærunni og höfð af þeim helg mannréttindi. Þeir voru sviptir kosningarrétti. Og við skulum ekki tala um þetta með þessum heilagleika eins og hæstv. ráðherra gerir.

Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti. Ég fagna því að nú skuli hefjast rannsókn á þessum tímum. Ég er ekki talsmaður þess að leitað verði sakamanna. Að einstaklingar verði hundeltir. Ég er ekki talsmaður þess. Ég vil fá allan sannleikann fram í dagsljósið. Það er gaman að heyra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins lýsa því yfir að krafan sé að fá allt upp á borðið. Öll skjölin fram. Eftir áratugabaráttu fólks sem grunaði að símar þess væru hleraðir er það loksins að gerast að opnað er á þessi skjöl. Og það var ekki að frumkvæði núverandi stjórnarherra heldur vegna þess að þeir voru knúnir til þess. Eftir áralanga og áratuga baráttu.