133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[18:02]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem er að gerast, annars vegar með aðkomu okkar varðandi gögn og aðgang að gögnum í Þjóðskjalasafninu og síðan varðandi þetta mál sem við erum að ræða hér. Við viljum allt fram í dagsljósið, við viljum sannleikann fram í dagsljósið. Þá segi ég enn og aftur: Ég vil ekki hálfsannleik. Ég vil ekki hálfsannleik eins og mér finnst hv. þm. Ögmundur Jónasson vera að reyna að setja hérna fram og draga fram.

Það er rétt að við eigum að skoða allt varðandi hleranirnar og þegar ég sagði það áðan að það væri frekar þannig að það hafi verið hlerað of lítið í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru, þá er miðað við hvað öll önnur ríki voru að gera. Við vitum að það var verið að hlera uppi á Túngötu. Sovétmenn gerðu það. Á ekki að rannsaka það líka? Eða ætlar hv. þingmaður að segja nei við því af því að það er ekki nægilega hentugt að rannsaka þann part og þann þátt málsins? Af hverju má ekki rannsaka það líka? (ÖJ: Auðvitað.) Auðvitað á að rannsaka þetta allt og það á líka að rannsaka tengsl til að mynda stjórnmálaflokka, ekki bara til vesturs heldur líka til austurs. Hver voru tengsl Sósíalistaflokksins á sínum tíma við Moskvu og Austur-Þýskaland? Af hverju má ekki skoða það? A hverju á ekki að skoða tengsl verkalýðshreyfingarinnar líka?

Þetta eigum við allt að skoða og ég er fegin því að sjá það að hv. þingmaður kinkar kolli því það er mikilvægt að við stjórnmálamenn reynum að hefja okkur yfir það að flokka þetta í vinstri og hægri, austur og vestur. Við viljum að sagan öll sé sögð til þess að börnin okkar geti áttað sig á því hvernig ákvarðanir voru teknar og í ljósi hvaða aðstæðna þær voru teknar.