133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[18:06]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji allan sannleikann fram en það er einhvern veginn þannig að hann er búinn að gefa sér ákveðnar forsendur, alltaf fyrir fram. Hér er hann búinn að veitast að ekki bara stjórnmálamönnum og þá sérstaklega sjálfstæðismönnum fyrri tíðar með mjög ósmekklegum hætti, látum það vera, það er engin nýlunda af hálfu hv. þingmanns, það er ekki síður hvernig hann hefur verið að veitast að dómurum fyrri tíma. (ÖJ: Hvaða sjálfstæðismönnum?) Það er þess vegna sem ég segi, ég vil fá allt fram og menn verði ekki fyrir fram búnir að gefa sér ákveðnar forsendur fyrir því af hverju var hlerað og af hverju var ekki hlerað. Ég tel mikilvægt að við skoðum alla söguna og við skoðum hana ekki með þeim gleraugum sem hv. þingmaður hefur nú á sér, heldur með þeim sagnfræðilegu gleraugum sem við verðum að veita hagfræðingum okkar tækifæri til þess að setja upp og þess vegna erum við að ræða frumvarpið hér, til þess að við fáum faglega nálgun á þetta mál sem er ágætt að taka upp núna eftir þó þennan tíma og eftir þessa fjarlægð sem við höfum. Við höfum þessa fjarlægð frá atburðum fyrri tíma en við megum ekki gleyma því af hverju atburðirnir hentu eins og þeir gerðu, af hverju þetta gerðist og sögunni vatt fram eins og hún gerði. Það voru ákveðnar aðstæður uppi í samfélaginu. Það var verið að ógna öryggishagsmunum þjóðarinnar á ákveðnu tímabili og hv. þingmaður hefur rætt um 30. mars 1949. Það verður ekki frá þeim degi tekið að hér var verið að veitast að og átti að veitast að löglega kjörnu þingi, sem er ætlað að taka löglegar ákvarðanir í skjóli þegna sinna og umboðs sem var veitt á grundvelli lýðræðislegra kosninga. Frá því verður ekki vikist og þess vegna verðum við að skoða heildarmyndina og ekki bara brotabrot af henni eins og sumir vilja gera.