133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mínar spurningar eru hliðstæðar þeim sem áður hafa komið fram, sérstaklega frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni varðandi þær lagagreinar sem nú gilda um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ef við lítum á 3. gr. þá skal Verðlagsstofa skiptaverðs afla ítarlegra gagna um fiskverð o.s.frv. Ef við lítum á 4. gr. segir að til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu beri Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr gögnum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllu slíku. Í 5. gr. segir að Verðlagsstofa skiptaverðs geti krafið sjómenn og útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila fiskmarkaða og umboðsmenn þeirra og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Um þetta gilda mjög ítarleg lagaákvæði.

Hér hljóta menn meira eða minna að hafa verið lögbrjótar og komist upp með það, enda er í greinargerð í athugasemdum með frumvarpinu látið að því liggja. Mér finnst athyglisvert að sjá þennan texta í frumvarpinu til laga þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð og hefur Verðlagsstofa ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp.“

Það er bara lögbrot ef það hefur ekki verið gert. Þarna er ýjað að lögbrotum að mínu mati. Ég spyr ráðherra: Þarf að setja sérstök lög um að farið sé að lögum?