133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er fastur liður að á hverjum vetri koma nokkur frumvörp til þess að stoppa í göt kvótakerfisins. Undanfarin ár hafa hæstv. sjávarútvegsráðherrar lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru, sum með litlum bótum, önnur með stærri bótum. Saumarnir hafa oft ekki verið úr merkilegum þræði þannig að þeir hafa raknað upp. Því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flytur nú er ætlað að stoppa upp í göt en svo verða saumarnir slakir og lélegir og rakna. Þá eru viðbrögðin þau að setja nýja bót ofan á þá bót sem fyrir er og það án þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi gert sér grein fyrir hvar slitið var mest. Það eitt var vitað að bótin sem fyrir var var slitin. Nú er ég ekki að gera grín að því þótt menn nýti flíkur sínar og setji bót á bót ofan, alls ekki. Nýtni þótti góð hér áður fyrr og þykir enn.

En þar sem um er að ræða jafnmikilvægan þátt og lög um fiskveiðistjórn og meðferð á stærstu auðlind landsmanna hlýtur maður að spyrja: Hvenær ætla stjórnvöld — það er sýnilegt að núverandi stjórnvöld munu ekki gera það — að átta sig á að kerfið er einfaldlega vitlaust? Það breytir engu þó að ein bótin sé sett yfir aðra, kerfið er vitlaust í grunninn. Það er það sem við sjáum þó að ríkisstjórnin sjái það ekki. Þó að það hafi verið sett í stjórnarsáttmálann að auðlind sjávar skuli vera sameign þjóðarinnar og það skuli bundið í stjórnarskrá þykir ekki ástæða til að fara eftir því. En það er einmitt forsendan fyrir því að vinna þann lagagrunn sem við erum að fjalla um.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, af því ég veit að hann er um margt vel meinandi í sjávarútvegsmálum, hvaða rök ríkisstjórnin hafi fyrir því að stoppa þetta. Sjálfstæðisflokknum er kennt um að hafa stoppað þetta ákvæði stjórnarsáttmálans, að fiskurinn í sjónum verði skilgreindur sem staðfest sameiginleg auðlind þjóðarinnar og það bundið í stjórnarskrá, þótt framsóknarmönnum sé það ekki heilagra en svo að þeir ganga ekki úr sænginni. Hvers vegna stoppa sjálfstæðismenn þetta? Eða er það satt að þeir stoppi það? Einn af flóttamönnunum úr Framsóknarflokknum, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fullyrti að sjálfstæðismenn hefðu stoppað þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Hann notaði það sem eina af ástæðunum fyrir því að hann gekk úr Framsóknarflokknum, að Framsóknarflokkurinn hefði látið bjóða sér þetta. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna er þessu ákvæði stjórnarsáttmálans ekki fylgt? Það er mikilvægur grunnur undir alla þá lagabálka sem við fjöllum um.

Áður en ég fer í einstaka efnisþætti þessa frumvarps vil ég minna á stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í sjávarútvegsmálum. Við leggjum áherslu á að staðfest verði í stjórnarskrá og í reynd að auðlindir sjávar verði í sameign þjóðarinnar og að þeir sem nýta auðlindina hafi fyrst og fremst nýtingarrétt. Að einstaklingar eða fyrirtæki sem fá heimild til þess að nýta auðlindina geri það á skilgreindan hátt innan þeirrar afmörkunar sem kveðið verði á um hverju sinni en aldrei verði um eign að ræða. Meðan nálgunin verður í æ ríkara mæli sú að um eign útgerðaraðila sé að ræða verður ekki sátt um sjávarútveg. Það er alveg klárt. Þetta er það mikilvægasta sem þarf að gera fyrir utan almenna grunnþætti hvað varðar nýtingu á auðlindinni sem þurfa að koma mun ákveðnar í lög.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að sjávarútvegurinn falli að lögum, reglum og kröfum um sjálfbæra þróun og að umgengni við auðlindina, við náttúruna, við lífríkið, við einstaka nytjastofna, við vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan, lúti og fari að markmiðum og kröfum um sjálfbæra þróun og náttúran njóti vafans. Ef umrætt ákvæði yrði á ákveðnari hátt tekið inn í stjórn fiskveiða þyrftum við síður að standa í því að vera að kagbæta kvótakerfið — þar eru menn stöðugt á mörkum hins lagalega, að nýta sér til fjár auðlindir þjóðarinnar eins og við þekkjum og frumvarpið staðfestir. Þeir sem fara með fiskveiðiheimildirnar eru að leita að lagakrókum til þess að brjóta lög og reglur, bæði lög um stjórn fiskveiða og einnig kjara- eða skiptasamninga við þá menn sem þar vinna. Segir það okkur ekki eitthvað um þann anda sem virðist vera innan sjávarútvegsins sem byggist á kvótakerfi? Talað var um kvótabrask, menn elta skottið á sjálfum sér í því að reyna að stöðva það. Það er því mjög athyglisvert, sem kemur fram í frumvarpinu, að þessir aðilar muni vera að brjóta lög. Mér finnst það segja sitt að í frumvarpi, sem hæstv. ráðherra flytur, er sagt berum orðum að þessir aðilar muni vera að brjóta lög. Hér segir, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð …“

Hvað er þetta annað en meint lögbrot? Menn setja slíkt orðalag ekki í frumvarp nema þeir hafi meira en staðfestan grun, nema þeir hafi staðfesta vitneskju um að svo sé. Okkur kemur þetta ekkert á óvart, við heyrum um þetta talað. Enda er mikið í húfi. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem ég hygg að þekki þessi mál vel, að mörgum öðrum þingmönnum ólöstuðum. Ég er ekki þar með að segja að hæstv. ráðherra þekki þau ekki líka vel. En ég tók eftir því að hann var að tala um að kvótaverðið væri 2.500–2.600 kr. kílóið af óveiddum þorski. Er það satt? Heyrði ég rétt? (Gripið fram í: Þetta er eins og laxveiði.) Þetta er fiskur og hver á þennan fisk? Hefur einhver velt því fyrir sér? Hver á þennan fisk? Jú, er það ekki þjóðin eða er það ekki framtíðin sem á þennan fisk? Fiskinn sem kvótakerfið leyfir sér að verðleggja sjálfu sér með þessum hætti. Mér finnst það gróft. Þetta sýnir okkur í hvaða óefni greinin er komin. Hvernig ætla nýir aðilar að komast inn í útgerð með þetta verð á veiðiheimildum? Ef haft er í huga að styrkur hvers atvinnuvegar felst í aðgengi nýrra aðila sjáum við á hvaða brauðfótum greinin stendur ef þessi er raunin.

Þeir sem komnir eru í erfiða stöðu leita alltaf leiða til að fara fram hjá lögum. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði — ég held mér sé óhætt að vitna í það sem hann hefur sagt þó að hann sé fjarstaddur — að um leið og búið væri að setja einhver lög, sérstaklega ef þau lúta að eignum eða fjármunum, sé fjöldi manns farinn að hugsa hvernig eigi að fara í kringum þau til þess að ná í fjármuni. Þau orð er hægt að heimfæra rækilega á kvótakerfið.

Herra forseti. Ég skil alveg sjónarmið hæstv. ráðherra. Hann telur sig vera að vinna gott og þarft verk. Hann er að reyna að stoppa þá óhæfu sem er í gangi, að láta sjómenn taka þátt í kaupum á kvóta eða kostnaði við að leigja kvóta til útgerðarinnar. En þetta segir okkur bara eitt. Þetta segir okkur að kerfið er í heild sinni alveg meingallað.

Rætt hefur verið um verðmyndunina. Hvaða verðmyndun er í gangi þegar maður er kominn inn í þetta kvótakerfi? Ég hef séð flutta á Alþingi tillögu til þingsályktunar um hvernig megi auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Þar hef ég lagt til að sjávarútvegsráðherra verði falið að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og möguleika til að draga úr honum og auka í stað fullvinnslu innan lands. Í greinargerð með þeirri tillögu er rakið hversu stór hluti af afla landsmanna er fluttur út í gámum án þess að hann fari í gegnum fiskmarkaði. Án þess að innlendar fiskvinnslur hafi möguleika á því að bjóða í fiskinn. Fiskurinn er fluttur út í gámum án þess að innlendir aðilar hafi einu sinni möguleika á að bjóða í hann. Hvers konar verðmyndun erum við þá að tala um? Hvers konar verðmyndun erum við að tala um þegar innlendar fiskvinnslur fá ekki einu sinni leyfi til að bjóða í hann? Ætli það sé ekki einhver skondin verðmyndun fyrir utan þær vigtunaraðferðir sem hafa þá líka áhrif á það skilaverð sem útgerðin og sjómennirnir fá til skipta?

Í þessari þingsályktunartillögu, sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, krefjumst við þess að fiskur sem á annað borð er verið að selja utan eigin fiskvinnslu fari á markað innan lands. Erlendir aðilar geta þá boðið í þann fisk á íslenskum fiskmörkuðum og flutt hann út. Mér finnst þetta enn meira mál en svo að vera hér að þvarga um lagafrumvörp um það hvernig koma megi enn frekari böndum á þá lögleysu að láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta. Ég sé ekki annað en samkvæmt gildandi lögum séu fullnægjandi heimildir fyrir því. Þar er einungis um að ræða viljaleysi þeirra aðila sem eiga að framfylgja lögunum til að taka á málunum.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hverjir eiga eiginlega að sjá um að þessum lögum, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sé framfylgt? Ég var að lesa um þessa úrskurðarnefnd. Mér sýnist hana í sjálfu sér ekki vanta neinar upplýsingar eða möguleika til að ná sér í upplýsingar. En ef brotaviljinn er fyrir hendi og það kerfi sem í gangi er hvetur til brota þá er heldur erfitt um vik.

Ég sé ekki annað en að ráðherra sé á fullkomnum villigötum hvað það varðar að taka á þessu máli, fullkomlega á villigötum. Við höfum, að mér sýnist, nægjanlegan lagagrunn til að taka á þessum þáttum að það megi ekki láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta. Þetta snýst frekar um að framfylgja lögunum. Ný lög eða viðbótarlög ofan á það breyta engu um það. Ég get ekki séð það.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur haft það að markmiði að taka allar auðlindir þjóðarinnar og eignfæra þær, setja eignarréttinn á auðlindunum í hendur örfárra aðila. Hún hefur flutt hvert frumvarpið á fætur öðru um hvernig megi tryggja þann eignarrétt, girða fastar og fastar utan hann. Þetta frumvarp er einmitt einn liðurinn í því að festa hið rangláta kvótakerfi í sessi með nýjum bótum ofan á eldri bætur.

Ég vil taka undir það sem margir hv. þingmenn hafa sagt, að verðmyndunin, grunnurinn fyrir þessu rugli öllu saman, er alls ekki á hreinu. Það eru margar útgáfur af verðmyndun. Allt frá því að fiskurinn er notaður til vinnslu í eigin útgerð, sendur á markaði eftir dúk og disk og annar hluti aflans er seldur úr landi án þess að komast á markaði innan lands. Ef hann kæmist á markað innan lands væri hægt að fá á hann hæsta verð sem hugsanlegt væri í íslenskum fiskvinnslum og erlendir aðilar gætu þá boðið á jafnréttisgrunni á móti.

Grunnurinn fyrir þetta kerfi er rangur. Kvótakerfið er óréttlátt. Það er rangt. Það að ríkisstjórnin skuli hafa svikið loforðið sem hún gaf kjósendum sínum, sem hún gaf flokkunum sínum, um að fyrir lok kjörtímabilsins yrði búið að binda það í stjórnarskrá, eða að minnsta kosti koma því í þann farveg að það yrði gert, að auðlindir sjávar yrðu sameign þjóðarinnar og það væri aðeins nýtingarrétturinn sem væri til ráðstöfunar eftir settum reglum á hverjum tíma. Þá væru það byggðirnar vítt og breitt um landið, fólkið vítt og breitt um landið, sem ætti fyrsta rétt. Það eru ekki bara útgerðirnar sem hafa skapað verðmyndunina í sjávarútveginum heldur líka fiskvinnslufólkið, íbúarnir í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið. Það fólk hefur ekki hvað síst átt hlut í því að móta verðmætamat í íslenskum sjávarútvegi sem er mikill en hlutur þess er (Forseti hringir.) sárlega rýr. Það kerfi sem hér um ræðir er einungis bót á (Forseti hringir.) annars meingallað fiskveiðistjórnarkerfi, herra forseti.