133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:41]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágæt og athyglisverð ræða sem hér var flutt. Mér finnst mjög merkilegt að verða vitni að því að fulltrúi þess flokks á Alþingi sem er lengst til vinstri skuli sýna markaðsöflunum miklum mun meiri skilning en Sjálfstæðisflokkurinn sem segir sig stundum vera hægri flokk, eða ég veit ekki hvað það er, en hann er alla vega sérhagsmunaflokkur.

Það frumvarp sem við ræðum sýnir einmitt að það kristallar sérhagsmuni og að þá eigi að vernda. Því er verið er að tryggja þetta kerfi og friða það með því að réttlæta þetta LÍÚ-kerfi.

En mér finnst eitt athyglisvert. Þegar við hlustuðum á ræðuna talaði hv. þingmaður um að tryggja ætti sjálfbærar veiðar, að veiða meira í sátt við náttúruna og ég get tekið undir að við eigum að horfa til þess. Það kerfi sem við höfum búið við á undanförnum áratugum er alvont. Það kom m.a. fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins í kvöld að enn og aftur er verið að boða niðurskurð.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir sjónarmið okkar í Frjálslynda flokknum að leyfa frjálsar handfæraveiðar. Þær voru frjálsar hér um aldir og fiskstofnar uxu og fóru í lægð og síðan uxu þeir á ný. Þær veiðar virtust ekki hafa nein áhrif. Ættum við ekki bara að fara þá leið að leyfa þetta á ný algjörlega frjálst, eins og við í Frjálslynda flokknum viljum? Við tökum einnig undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) um að láta markaðsöflin ráða varðandi fiskverð.