133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:21]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég nokkuð yfir verðmyndun í sjávarútvegi og leiguviðskiptin og það fyrirkomulag allt saman en eðli málsins samkvæmt var það náttúrlega ekki tæmandi og kannski rétt að fara aðeins betur yfir það. Það er auðvitað þannig að hlutir sjómanna, þ.e. þeir sem eru á vinnsluskipum, hvort sem það eru uppsjávarvinnsluskip eða botnfiskvinnsluskipin, eru á því verði sem fæst fyrir afurðirnar á heimsmarkaði, þ.e. varan er seld beint frá skipi inn á heimsmarkaðinn á því verði sem fæst fyrir afurðirnar og það hefur verið hækkandi á undanförnum missirum í þó nokkurn tíma. Sjómenn á þeim skipum njóta því í raun og veru kjara í samræmi við heimsmarkaðsverð á afurðunum sem verið er að selja.

Þau sömu fyrirtæki sem gera út frystitogarana og uppsjávarveiðiskipin sem vinna úr aflanum og selja unna vöru gera einnig út botnfiskveiðiskip sem er yfirleitt ætlað að veiða hráefni í ferskvinnslu og koma með ferskt hráefni til vinnslustöðvanna í landi. Hvernig er verðlagningunni háttað þar? Þar er um svokallaða beina samninga að ræða milli áhafnanna og útgerðarinnar sem er ekki í samræmi við það verð sem búum við á fiskmörkuðunum þar sem önnur fyrirtæki eru að kaupa og keppa og hafa reyndar iðulega rutt brautina í nýrri markaðssetningu á ýmissi vöru sem stærri fyrirtækin hafa kannski yfirtekið síðar í krafti þess að þau höfðu aðgang að aflaheimildum umfram þau fyrirtæki sem eru án útgerðar og eiga ekki yfir aflaheimildum að ráða. Þess vegna er það auðvitað mjög mikið mál, hæstv. forseti, að verðmyndunarkerfi okkar verði breytt og menn fái að sitja við sama borð í framtíðinni og það sé í raun og veru fiskmarkaðurinn sem verðleggur fiskinn.

Svo er það þetta „blessað“ leiguverð sem við höfum verið að ræða hér og er algerlega farið úr böndum og eins og ég hef raunar sagt stundum áður í ræðum mínum þá er leiguliðinn arðsamasta fjárfestingin fyrir kvótaréttarhafann. Hann gefur eiginlega mest beint í vasann fyrir þann sem aflaheimildirnar hefur því þegar búið er að leigja aflaheimildirnar á 170–180 kr. eins og í þorskinum í dag þá koma þær óskiptar í vasa þess útgerðarmanns sem frá sér leigir og það þarf ekki að skipta þeirri upphæð með neinni áhöfn. Oftast nær er það svo að með einhverjum hætti bitnar þetta leiguverð á þeim áhöfnum sem koma nálægt því að veiða fiskinn eftir leigusamningnum þó það sé sem betur fer ekki algild regla þá er það samt oftast nær svo. Það gerist m.a. vegna þess að beina viðskiptaverðið, verðið sem samið er um í beinum viðskiptum og Verðlagsstofa stimplar, það eru miklu lægra en markaðurinn býður að jafnaði fyrir sömu fisktegund.

Þessu vildi ég bæta inn í umræðuna um fiskverð og myndun þess, leiguviðskiptin og það dæmi allt saman. Þannig að þó að því frumvarpi sem hér er til umræðu sé ætlað að taka að nokkru leyti á því og koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í þessum kostnaði þá er ég ekki viss um að okkur takist það með þessari viðbót sem hér er að stefnt þó að ég efi ekki að viljinn sé góður. Kerfið er hins vegar þannig upp byggt frá upphafi að það nær ekki að virða eðlileg markaðslögmál og eðlilegar viðmiðanir í sjávarútveginum.

Ef maður hins vegar kemur að veiðistjórninni, hæstv. forseti, sem er náttúrlega hluti af þessu kerfi, þá er það þannig að fiskurinn hagar sér ekki alltaf eins og útgerðarmennirnir vilja að hann hagi sér. Ýsan er dæmi um fisktegund sem hagar sér öðruvísi en kerfið gerir ráð fyrir og hefur verið meira en áður á grunnslóð, bæði í ár og á síðastliðnu ári. Það þýðir þá að vegna þeirrar fiskveiðistýringar sem við höfum gert sátt um að væri í landhelginni, m.a. með mikilli takmörkun á togveiðum innan 12 sjómílna víða frá ströndum landsins, sem sátt hefur verið um í áratugi að væri þannig, þá hafa veiðiheimildirnar af ýsu í stóra kerfinu verið núna til leigu fyrir smábátana í minna kerfinu sem veiða á línu og veiða innan fjarða og flóa ef því er að skipta, innan 12 mílna landhelginnar þar sem ýsan hefur verið í meira mæli að undanförnu en áður var. Þar af leiðandi eru veiðiheimildir núna að færast frá stóra flotanum yfir á litla flotann.

Þetta segir okkur auðvitað að kvótakerfið eins og það er uppbyggt með úthlutunum sínum í aflahlutdeild á útgerðir mælir ekki fiskhegðunina og ekki fiskgengdina og sá sem fær aflahlutdeild í raun og veru getur auðvitað leitast við að veiða hana hvar sem er við landið burt séð frá því hvernig henni var úthlutað og hvar skipin áttu heimahöfn. Við erum hins vegar með veiðireglu sem gerir það að verkum að það er ekki sjálfgefið að aflinn veiðist í viðkomandi veiðarfæri, a.m.k. ekki þegar að togveiðunum kemur, því á undanförnum árum höfum við sett inn takmörk.

Við höfum reyndar verið að setja togveiðum meiri takmörk á undanförnum árum en var kannski fyrri 20 árum, m.a. með því að friða fleiri svæði að því er varðar aðrar fisktegundir eins og karfa og einnig höfum við verið að fikra okkur inn á það að friða svæði til þess vernda botngróður, eins og kóralsvæði og annað slíkt. Það eru því fjöldamörg rök sem hafa verið tínd til á undanförnum árum við að takmarka togveiðarnar. Ég er ekki að segja þetta hér sérstaklega til að mæla fyrir um að auka togveiðarnar innan 12 mílna. Ég er eingöngu að benda á það að fiskveiðikerfið sem úthlutar aflahlutdeild sem er ekki svæðisbundin með neinum hætti er auðvitað ekki þannig að hún sé sett niður á ákveðin svæði, veiðislóðir eða landsvæði.

Þetta getur auðvitað boðið þeirri hættu heim að fiskur sé veiddur meira á einu svæði en öðru hvort sem það passar svo inn í lífríkismunstrið eða ekki og það er svo sem önnur saga og meiri fiskifræði en ég ætlaði að ræða sérstaklega í þessari ræðu.

Ég bendi hins vegar á að í næsta máli á dagskránni verður talað um svæðisbundna fiskveiðistjórn, þ.e. svokallaða úthafsfiskveiðistjórn þar sem skipt er niður í sérstök svæði og ákveðnar stjórnunarreglur sem bindast við ákveðin veiðisvæði. Það þekkja menn auðvitað annars vegar í NEAFC-reglunum og hins vegar í NAFO-reglunum í Vestur-Atlantshafinu. Þar er skipt niður bæði veiðisvæðum á rækju og karfa eins og í Kanada og við höfum auðvitað heyrt sögur af því að menn veiði á einu svæði en skrái kannski aflann á öðrum svæðum.

Þetta vildi ég benda á, hæstv. forseti, að það er ekki sjálfgefið að fiskurinn hagi sér alltaf eins og gert er ráð fyrir þegar menn úthluta ósvæðisbundið og ótímasett og það er heldur ekki sjálfgefið að með kvótakerfi sem er svona úthlutað tökum við tillit til þeirra svæða sem verið er að veiða á. Það getur verið þannig að sóknin vegna fiskgengdar beinist eingöngu inn á eitt svæði og þar tökum við kannski stóran hluta af aflanum þó svo það sé kannski ekki beinlínis í samræmi við það sem komið hefur í ljós í rannsóknum á undanförnum árum og fiskimenn hafa reyndar sagt í áratugi að það væru sérstakar þorskfjölskyldur við landið o.s.frv. og því ekki sjálfgefið að fiskur sem væri í Húnaflóa gengi í Faxaflóa eða öfugt. Á þetta vildi ég benda, hæstv. forseti, að kvótakerfið eins og það er hannað stýrir ekki fiskveiðum með tilliti til náttúrunnar.