133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:53]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vistun aflaheimilda er í raun og veru bara framsal og í lögunum um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir því að menn hafi heimild til að framselja hluta af aflaheimildum sínum, þá er auðvitað augljóst mál að ef um það er að ræða og Verðlagsstofa skiptaverðs telur ástæðu til þess að kalla eftir þeim upplýsingum sem hún telur þörf á þá hefur hún heimildir til þess. Ég sé því ekki að það sé neitt leyndarmál á bak við það. Það er hins vegar viðurkennt að þetta er gert. Menn framselja frá sér aflaheimildir til tiltekinnar útgerðar sem síðan skilar þeim til baka. Þetta er þekkt og það hefur aldrei farið fram neinn feluleikur um þetta mál.

Í öðru lagi það sem hv. þingmaður hefur spurt mjög mikið um í kvöld varðandi stjórnarsáttmála og varðandi þjóðareignarákvæðið í stjórnarskránni, þá er það bara þannig að hæstv. iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins svaraði þessari spurningu mjög afdráttarlaust í þingsalnum og ég er alveg sammála honum um það. Það er einfaldlega þannig að stjórnarskrárnefnd sem hefur haft þetta mál til meðhöndlunar hefur ekki lokið þessum þætti endurskoðunar sinnar, ekki frekar en ýmsum öðrum þáttum sem hún hefur haft til meðhöndlunar. Nefndin hefur lokið tilteknu starfi og skilaði því af sér í einhvers konar áliti sem liggur núna fyrir en það er ekki þar með sagt að hún telji sig hafa lokið störfum sínum. Ég hef a.m.k. ekki heyrt um það að stjórnarskrárnefndin hafi talið að hún hafi lokið störfum sínum.