133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta með vistun aflaheimildanna er alveg sérstakt mál. Þarna eru færð gríðarleg verðmæti á milli fyrirtækja og það líðst hvergi nokkurs staðar í viðskiptum á byggðu bóli á Íslandi og varla nokkurs staðar annars staðar að slík verðmæti séu ekki færð til bókar hjá fyrirtækjunum sem eignir. En í sjávarútveginum má gera þetta án þess að stafur sé fyrir því í lögum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra þarf að gera betur en þetta. Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti, úr því að hann telur að þetta fyrirkomulag eigi að vera svona, að finna því stað með einhvers konar lagasetningu og leyfa mönnum að fást við hana hér í Alþingi. Fiskistofa hlýtur að eiga að fylgja fram lögunum eins og þau eru og það þýðir að sama ákvæði á auðvitað að gilda um þetta framtal eins og annað.