133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:08]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega jákvæðar undirtektir í lok umræðunnar við þetta frumvarp. Mér finnst að þessi umræða hafi leitt til þess að markmiðið með þeirri hugsun sem liggur að baki frumvarpsins hafi vonandi skýrst aðeins betur. Við erum ósköp einfaldlega að reyna að freista þess að ná því markmiði okkar að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum. Og af því að við teljum að núgildandi lög séu ekki nægilega skýr og ekki nægilega beitt í því skyni þá höfum við sett fram þetta frumvarp og hér er ég að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og ég tel þess vegna að það sé mjög af því góða að við reynum að ná samkomulagi um þetta mál vegna þess að ég hef skilið umræðuna, ekki bara í dag heldur undanfarnar vikur og mánuði á þessum vetri þar sem þessi mál hafa nokkrum sinnum komið upp, m.a. í utandagskrárumræðum þar sem ég lýsti því yfir að ég vildi setja fram reglur af þessum toga. Ég fann ekki annað en menn fögnuðu því almennt og ég lít þannig á að þó að þessi umræða hafi tekið þetta langan tíma, þá hafi hún þó a.m.k. leitt til þess sem mér heyrist vera almennur hljómgrunnur og stuðningur við það meginsjónarmið.