133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:28]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi geta þess að mér er ekki alveg ljóst af hverju hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur þessa umræðu um stjórnarskrárþátt málsins núna þegar ekkert í því máli snertir efnisatriði frumvarpsins sem er til umræðu. En það er önnur saga, það er hans val að gera það.

Án þess að fara út í að endurtaka umræður sem við hv. þingmaður höfum átt í góðri vinsemd á vettvangi stjórnarskrárnefndar vildi ég gera ljóst að það var markmiðið frá upphafi að ræða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það var gert. Forsætisráðherra lagði, eins og menn muna, upp með að taka ætti til endurskoðunar I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar. Að kröfu leiðtoga stjórnarandstöðunnar var vinnulagi breytt á þann veg að farið var út í heildarendurskoðun og miðaði starf nefndarinnar allan tímann að því marki. Það var hins vegar ljóst, og hefur verið ljóst í nokkra mánuði, að því verki mundi ekki ljúka á tilsettum tíma miðað við umboðið sem nefndinni var gefið. Það á jafnt við um það efnisatriði sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni eins og önnur. Ljóst var að ekki tækist að ná landi á tilsettum tíma hvað varðar fjölmörg önnur efnisatriði, mismikilvæg atriði en allt atriði sem einstakir flokkar eða jafnvel margir flokkar lögðu áherslu á. Það er alveg óþarfi að fara út í miklar samsæriskenningar og vangaveltur af því tilefni. Staðan er þessi og það er hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni ljóst.