133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ólíkt hv. þingmanni að vaða í villu og svíma í máli sínu sem er yfirleitt skýrt og rökrétt. Það gerði hann þó áðan. Hv. þingmaður gerði því skóna að ég hefði tekið þetta mál upp. Ég hef setið eins og saklaust lamb undir þessari umræðu og ekki tekið þátt í henni. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta snertir ekki efnisatriði þess máls sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flutti en hins vegar sýnir það nú vanþekkingu mína á málinu að ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta virðist snerta kjarna þess.

Því kom ég hér upp, herra forseti, að menn voru byrjaðir að ræða þetta mál, þ.e. sameignarákvæðið. Hv. þm. Jón Bjarnason varpaði fram spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem svaraði. Það kom fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann taldi að nefndin hefði ekki lokið störfum og ég skildi það svo á máli hans að hann gerði því jafnvel skóna eða vildi a.m.k. flýja í það skjól að það væri hugsanlegt að hún ætti enn eftir að fara í þetta mál. Þess vegna kom ég upp.

Fáu af því sem hv. þingmaður sagði get ég andmælt, flest af því er rétt, ekki kannski allt samkvæmt mínum skilningi, en það er alveg hárrétt hjá honum að menn vildu fara í heildarendurskoðun, þ.e. þeir sem tóku sæti í nefndinni í upphafi. Mjög snemma lá ljóst fyrir að það voru einstök atriði sem hægt var að ná sammæli um, til að mynda þetta ákveðna atriði. Ég var þeirrar skoðunar, og fulltrúar Samfylkingarinnar frá því mjög snemma að við ættum að reyna að bindast samtökum um að ljúka þessu máli, það var ekkert því til fyrirstöðu. Hver einasti maður í nefndinni, hugsanlega með einni undantekningu, lýsti stuðningi við þetta með einhverjum hætti. Allir flokkarnir hafa gert það með sínum hætti áður, en eins og hv. þingmaður sagði, þeir sem réðu kusu þá aðferð að segja: Við viljum ljúka endurskoðun á allri stjórnarskránni í einu en ekki þessu tiltekna atriði. Ég var ósammála því (Forseti hringir.) og ég geri engar athugasemdir við að þeir hafa aðrar skoðanir. Ég gæti svo sem upplýst, ef mér auðnaðist lengra mál, herra forseti, af hverju það var en mér er varnað málsins.