133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem felst í spurningu hv. 10. þm. Suðurk. Það er alveg nauðsynlegt að við getum framfylgt þessum lögum og það verður auðvitað gert, m.a. með því að Landhelgisgæslunni sé gert kleift að fylgja þessu vel eftir. Landhelgisgæslan gerði það mjög vel á síðastliðnu ári en þá reyndi Gæslan að hafa mjög virkt eftirlit með ferðum þessara skipa, bæði úr lofti og eins með því að vera með skip sín á þessum svæðum.

Það er hins vegar rétt að það er mjög mikilvægt að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar og það er einmitt verið að gera það bæði með því að auka við þyrluflota hennar en síðast en ekki síst með þeirri ákvörðun sem hefur verið tekin um það að kaupa nýtt varðskip.

Allt eru þetta liðir í því að við erum að reyna að tryggja vörslu okkar mikilvægu landhelgi og jafnframt að tryggja að þær veiðar sem við eigum aðild að sem strandríki og eiga sér stað utan lögsögunnar, fari fram með ábyrgum hætti og í samræmi við þær reglur sem svæðisbundnar stjórnarstofnanir hafa sett. Þess vegna tek ég alveg undir það með hv. þingmanni, að við þurfum auðvitað að hyggja vel að því að Landhelgisgæslan sé í færum til að fylgjast með þessu.

Það er hins vegar líka nauðsynlegt að árétta það að til þess að ná þarna raunverulegum árangri þá þurfum við líka að eiga samstarf við aðrar strandþjóðir, þar á meðal ríki Evrópusambandsins, Noregs og annarra slíkra, sem hafa heilmikið um þetta að segja. Þetta er alþjóðleg glæpastarfsemi sem þarna á sér stað á þeim skipum sem veiða þarna með ólöglegum hætti á NEAFC-svæðinu og þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að við tryggjum það og komum í veg fyrir að þessar veiðar eigi sér stað og við höfum verið að gera það með margvíslegum aðgerðum sem hafa fælt þessi skip og hafa gert þeim erfiðara fyrir. En ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er nauðsynlegt að við getum framfylgt þessum lögum.