133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:11]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér skilst að þessu frumvarpi sé ætlað að ná utan um þá starfsemi sem fer fram utan 200 mílnanna á Reykjaneshrygg. Mig langaði að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra í fyrsta lagi, hvort þessar veiðar séu umfangsmeiri nú en þær hafa verið á undanförnum áratugum eða hvort þær séu eitthvað minni.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er verið að brjóta lög og þá hvaða lög? Ég get ekki séð að þarna sé verið að brjóta nokkur lög því þeir sem veiða þarna fyrir utan 200 mílur eru einfaldlega að gera það í samræmi við alþjóðalög og alþjóðasamninga, hafréttarsamninga. Ég átta mig ekki á því þegar hæstv. ráðherra kallar þessa starfsemi sem er þarna í samræmi við alþjóðalög einhverja alþjóðlega glæpastarfsemi, eða jafnvel sjóræningjaveiðar. Ég held að menn verði að kunna orðum sínum hóf þegar verið er að fjalla um löglega starfsemi.

Þarna er einfaldlega svipuð starfsemi og við Íslendingar höfum stundað m.a. í Smugunni og Flæmska hattinum og víðar á alþjóðlegu hafsvæði. Mér finnst þetta vera alveg með ólíkindum þegar hæstv. ráðherra notar þvílík orð um atvinnustarfsemi sem er í samræmi við alþjóðasamninga.