133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:13]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þau ráð sem hv. þingmaður veitti mér um að vera ekki stórorður. Ég veit að það er eitthvað sem hv. þingmaður hefur löngum tileinkað sér, að vera ekki stórorður í ræðustóli og það þekkjum við sem höfum hlustað á nokkrar ræðurnar hans.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort hér væri um að ræða umfangsmeiri starfsemi. Það er alveg rétt, þessi starfsemi hefur verið að aukast. Ég held hins vegar að sú viðleitni sem við höfum verið að sýna á undanförnum árum hafi gert það að verkum að það hafi dregið úr henni. Að minnsta kosti hefur þetta verið gert óhagkvæmara og erfiðara og þess vegna vænti ég þess að það hafi stuðlað að því að hugsanlega hafi dregið úr þessari veiði og a.m.k. ætti ég von á því að það gerði það að verkum að það væri erfiðara fyrir þessa sjóræningjaveiðimenn að koma hingað aftur í vor með þeim hætti sem þeir hafa gert undanfarin ár.

Því þetta eru sannarlega sjóræningjaveiðimenn. (Gripið fram í.) Því það er bara einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að við byggjum hér á alþjóðlegum lögum og reglum. Við byggjum á því að það er strandríkjasamkomulag um veiðarnar á þessu svæði sem er fullgilt samkomulag og byggir á NEAFC-samningnum, og ég er mjög undrandi á því að slíkar raddir skuli heyrast hér á Alþingi í þá veru sem hv. þingmaður endurspeglar. Það kemur mér líka sérstaklega á óvart að það skuli koma úr munni þingmanns Frjálslynda flokksins vegna þess að á síðastliðnu ári stóð varaformaður Frjálslynda flokksins upp og lýsti því yfir að það ætti að beita miklu meiri hörku en íslensk stjórnvöld hafa gert. Hvatti til þess að menn færu af stað með klippurnar úr varðskipunum til þess að klippa aftur úr þessum skipum og hvatti með öðrum orðum til þess að við beittum miklu meiri hörku en við höfum verið að gera.

Með þessu erum við að stíga það skref að skerpa á þeim lögum sem ég vísa hér til. Ég vísa síðan til þess að á vettvangi annarra ráðuneyta er líka verið að fara yfir þessi mál þótt þau frumvörp séu ekki komin fram. Það er því fullur hugur af hálfu íslenskra stjórnvalda að beita mikilli hörku við þessar ólöglegu veiðar og ég vona að það séu ekki margir sem endurómi þær úrtöluraddir sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur haft hér uppi í umræðunni.