133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í millitíðinni frá því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson fjallaði um þessar veiðar í úthafinu hafa komið fram upplýsingar, m.a. ritaðar af lögfræðingi sem stundar framhaldsnám í alþjóðarétti sem bendir á að þessi starfsemi sé fyllilega í samræmi við alþjóðalög. (Gripið fram í.) Sá ágæti maður heitir Bjarni Már Magnússon og ritaði m.a. grein í Morgunblaðið þess efnis.

Mér finnst menn verða að ræða þetta út frá þeim staðreyndum að hér er um að ræða starfsemi sem er í samræmi við alþjóðalög. Auðvitað eigum við Íslendingar að gera þeim aðilum sem eru í samkeppni við okkur erfitt fyrir en við eigum kannski ekki að vera að kalla þessa starfsemi sjóræningjaveiðar þegar við höfum sjálfir, Íslendingar, stundað svipaðar veiðar, m.a. í Smugunni og á Flæmska hattinum. (Forseti hringir.) Mér finnst það með ólíkindum ef við ætlum að fara gegn (Forseti hringir.) alþjóðalögum, smáþjóð sem þarf einmitt að byggja á rétti alþjóðareglna.