133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér ræðum við um að stjórna fiskveiðum fyrir utan fiskveiðilandhelgi okkar, fyrir utan 200 mílurnar. Mér finnst athyglisvert að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli leggja ofuráherslu á það að ná utan um veiðar fyrir utan 200 mílurnar. Hvers vegna er það svo athyglisvert, og umhugsunarefni að hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson skuli leggja þessa áherslu á að ná að stjórna veiðum fyrir utan 200 mílurnar? Mér finnst það vera athyglisvert vegna þess að hann hefur ekki náð nokkrum einasta árangri í því að stýra veiðum innan landhelginnar og með þessu litla máli er hann eflaust að reyna að færa umræðuna frá óstjórninni hérna heima, frá þessari algjöru óstjórn sem ríkir hér, og færa talið að nokkrum togurum úti í ballarhafi.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvað munar þetta miklu, hverju munaði ef við næðum að stugga við þessum togurum, mun það bjarga uppbyggingu þorskstofnsins? Hvað telur hæstv. ráðherra að það muni bjarga miklu í uppbyggingu þorskstofnsins? (Sjútvrh.: Veistu ekki að það er karfi sem verið er að veiða?) Ég veit það vel. Hér grípur hæstv. ráðherra fram í og kallar: Veit hann ekki að það er karfi þarna fyrir utan? Jú, ég veit það. En hvers vegna er lögð áhersla á þetta þegar allt er í kaldakoli hér? Hvers vegna kemur ekki hæstv. ráðherra með tillögur um hvernig við náum meiri árangri hérna heima? Nei, það gerist ekki vegna þess að hann er að eyða talinu og færa fókusinn frá umræðunni, bæði óréttlætinu og óstjórninni sem ríkir á fiskimiðunum við Ísland. Það er algjör óstjórn að það sé hægt að selja veiðiheimild, t.d. út af Norðurlandi, allar veiðiheimildir Grímseyinga til Sandgerðis og ætla að veiða þann kvóta út af Suðurlandi. Það er algjör óstjórn. Í stað þess að reyna að ná utan um hana heldur ráðherrann áfram þeirri vinnu að stugga við einhverjum skipum sem eru fyrir utan 200 mílurnar.

Mér finnst sjálfsagt að gera þeim erfitt fyrir. Ég ætla ekki að draga dul á það að mér finnst að við eigum að reyna að sitja sem mest að þessum fiskveiðum, og að sem mest af þeim renni til okkar sjálfra, til íslenskra fyrirtækja, mér finnst það eðlilegt, og til íslenskra sjómanna. Ég hefði samt talið það forgangsverkefni hjá hæstv. ráðherra að ná utan um þessa algjöru óstjórn sem ríkir á íslenskum miðum. Við verðum að gæta að því að það berast stöðugt, nánast á hverju missiri, vondar fréttir af uppbyggingu þorskstofnsins. Við heyrðum í haust fréttir af 6% niðurskurði í haustralli og nú í kvöldfréttunum var greinilega Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, á hringferð um landið að boða enn á ný ótíðindi. Hann var staddur vestur á fjörðum að boða að það væri von á enn einni svartri skýrslu og ekki bar hann á borð neinar niðurstöður heldur var hann að undirbúa ótíðindin. Mér finnst mjög sérstakt að við ræðum hér stjórn fiskveiða fyrir utan 200 mílna lögsöguna þegar við náum ekki að stýra fiskveiðum með þokkalegum hætti innan landhelginnar.

Þessi stýring byggir á líffræðilegri dellu sem er rétt að fara í gegnum. Vissulega gengur þetta kerfi upp út frá lögfræðilegri hlið og skriffinnsku en þegar menn ætla að stýra fiskveiðum með einum landskvóta yfir fjölmörgum fiskimiðum, yfir landsvæði og hafsvæði sem er gríðarlega stórt, gengur það bara ekki upp, það er alveg morgunljóst. Samt er haldið áfram og reynt að breiða yfir ríkjandi óstjórn.

Það ætti að vera forgangsverkefni að hæstv. sjávarútvegsráðherra færi í gegnum þessa stýringu hérna heima og ræddi opinskátt á Alþingi Íslendinga hvers vegna okkur miðar ekkert áfram og hvers vegna við horfum ekki til þeirra landa þar sem fiskveiðistjórnin hefur gefist vel, svo sem í Færeyjum. Við í Frjálslynda flokknum höfum ítrekað sagt: Skoðum færeyska kerfið. En hæstv. sjávarútvegsráðherra LÍÚ er alveg lokaður fyrir því og heldur áfram að boða stefnu LÍÚ þrátt fyrir að hún gangi þvert gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Ég bið hæstv. sjávarútvegsráðherra að hugsa dæmið til enda. Hvar hafa þorskveiðar gengið vel á undanförnum árum? Hafa fiskveiðar ekki einmitt gengið vel í Færeyjum? Að vísu hefur þorskveiðin dalað síðasta árið en í Barentshafinu þar sem veiðar hafa verið frjálsar, þar sem veitt hefur verið langt umfram kvóta, hefur fiskast bara mjög vel. Þar er ekki farið eftir ráðgjöf. Mér finnst tímabært að hæstv. ráðherra spyrji þeirrar spurningar hvort ekki sé eitthvað að þessari ráðgjöf í stað þess að ætla að færa ráðgjöfina út fyrir 200 mílurnar, ráðgjöf sem hefur ekki gefist á íslensku fiskimiðunum. Að ætla að færa hana út fyrir er alveg fáheyrð vitleysa.

Það má einnig segja um þetta frumvarp að í því kristallist tvískinnungur okkar Íslendinga í fiskveiðimálum á undanförnum árum. Árið 1995, þegar við veiddum fisk á úthafinu, í Smugunni, notuðum við einmitt rök þeirra sem stunda nú veiðarnar fyrir utan 200 mílurnar, rökin um að þetta sé opið hafsvæði. Það gengur einfaldlega ekki að taka síðan upp rök Norðmanna án þess að skýra afstöðuna eitthvað nánar.

Hvað eru óábyrgar fiskveiðar og hvað eru ábyrgar fiskveiðar? Þær fiskveiðar sem hafa verið stundaðar á síðustu árum við Íslandsstrendur eru óábyrgar. Það er mjög óábyrgt að ná ekki því út úr fiskimiðunum sem mögulegt er. Þetta kerfi hefur einfaldlega ekki skilað þeim árangri sem er að vænta. Það er mjög óábyrgt að stýra fiskveiðum eftir fyrir fram ákveðnu magni sem menn ákveða í upphafi hvers fiskveiðiárs. Þetta hefur ekki gefist vel og mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að hugsa sinn gang áður en hann fer að stýra fiskveiðum fyrir utan landhelgina, hann ætti að reyna með einhverjum hætti að ná utan um þær veiðar sem eru innan 200 mílnanna.

Það væri mjög gott fyrir umræðuna um fiskveiðistjórn ef hæstv. ráðherra greindi okkur frá því hvaða fréttir forstjóri Hafró er að boða. Hvað gögn hefur hann undir höndum? Er það eitthvað nýtt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra getur greint okkur frá í þessari umræðu um sjávarútvegsmál? Eru það einhver ný gögn? Hvaða gögn þá? Forstjóri Hafró sagði í fréttatímanum að það væri veitt umfram þessi 25%. En gögn frá Hafró, svona merkingargögn, sýna svo ekki verður um villst að mun minna er veitt en Hafrannsóknastofnun leggur til.

Hvers vegna segi ég það? Jú, merkingartilraunir sem fóru fram á 10. áratugnum sýndu að einungis um 15% fiskmerkja skiluðu sér. Ef þessi 25% veiðiregla væri raunveruleikinn ættu 25% af merkjum að skila sér á hverju ári, en eftir að búið er að veiða allan fiskinn skila sér einungis 15% merkjanna sem segir okkur að miklum mun lægra hlutfall veiðist af fiski en veiðireglan gefur tilefni til að ætla. Í rauninni ættu að veiðast 25% fyrsta árið og svo 25% af því sem eftir er af fiskinum á næsta ári og sömuleiðis á þriðja ári. Þegar allt er saman tekið ættu um 60% af merkjunum að skila sér, en einungis 15% koma í leitirnar. Það leiðir líkum að því að miklu minna veitt sé veitt en þessi stofnlíkön gera ráð fyrir sem færir okkur heim sanninn um að miklu meira drepst náttúrulegum dauða, og það bara fer fram hjá okkur. Sá fiskur sem ekki er veiddur geymist ekkert í hafinu, það segja þessir útreikningar.

Mér finnst það í raun óábyrgt að skoða ekki þessi gögn nánar. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera okkur hér grein fyrir því hvaða gögn það eru sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar boðar nú hringinn í kringum landið þar sem hann boðar enn ein ótíðindin. Rétt fyrir jólin var birt rannsókn af fiskmerkjum sem sýndi að miklu minna hlutfall væri veitt en stofnlíkan Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir. Við verðum að svara þessari spurningu áður en við förum að færa þetta nýtingarkerfi út fyrir 200 mílurnar. Við verðum að ganga úr skugga um hvort minna sé veitt en ráðlagt er. Það er einmitt það sem þessar merkingartilraunir frá 10. áratugnum gefa til kynna, að mun minna sé veitt en ráðlagt er, kannski ekki nema 5–6% af stofninum þegar heildarmerkin sem skila sér eru 15% en ættu að vera 60% ef stofnlíkön Hafrannsóknastofnunar væru rétt.

Ég er á því að hæstv. ráðherra eigi að svara því hér hvers vegna við eigum að halda áfram með því að stýra veiðum fyrir utan 200 mílurnar þegar þessi stýring sem hefur verið viðhöfð innan 200 mílnanna hefur gefist svona illa. (GAK: … ótíðindin …) Þegar verið er að boða ótíðindi minnir þetta einmitt á fréttatilkynningu um mikla skýrslu í Science um að allir fiskstofnar heimsins yrðu uppurnir árið 2048. Þá var pískuð upp stemmning fyrir ótíðindunum en þegar skýrslan var skoðuð var innihaldið rýrt og ekkert tilefni til þess að ætla að allir fiskstofnar heimsins yrðu uppurnir 2048.

Hverjir gerðu þá skýrslu? Einmitt þeir sem hafa verið að fara yfir starfshætti Hafró, fara yfir þessa veiðireglu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að fara með út fyrir 200 mílurnar en hefur alls ekki gefist innan 200 mílnanna. Það er ekki við hæfi nema menn gangi virkilega úr skugga um það að þessi vísindi séu á einhverjum rökum reist. Það er margt sem bendir til að svo sé ekki, ég nefndi hér merkingartilraunina en ég vil líka nefna það þegar mörg hundruð þúsund tonn af þorski týndust við það að stofnarnir voru endurmetnir um síðustu aldamót. Þá var allt reiknað upp og ef maður skoðar þessar töflur hjá Hafró sér maður að stærð hrygningarstofna breytist og hleypur á hundruðum þúsundum tonna eftir því hvaða aðferð er notuð við matið.

Þess vegna segjum við í Frjálslynda flokknum: Það á ekki að stýra fiskveiðum eftir fiskatalningu, það er miklu nær að stýra með sókn, stýra fjölda skipa á floti og þeim veiðarfærum sem eru notuð því að þá fer aflinn í rauninni eftir stærð fiskstofnanna. Ef þeir eru stórir gefst mikill afli. Það er ekki vert að reyna að ákveða fyrir fram með misgóðum aðferðum hvað fiskstofnarnir eru stórir og áætla síðan eitthvert prósentuhlutfall úr því sem Hafrannsóknastofnun segir sjálf að hafi ekki gengið eftir, það hafi verið veitt meira, stofnarnir hafi verið ofmetnir og þess vegna hafi verið tekin hærri prósenta en ætlunin var.

Þetta meinta uppbyggingarstarf fræðinga í töflureiknum á fiskstofnum, ekki ár bara fram í tímann heldur jafnvel áratugi, hefur ekki gengið upp og það að halda að stór hrygningarstofn gefi endilega stærri nýliðun er líffræðileg vitleysa sem sést mjög rækilega í gögnum frá Færeyjum. Það er miklu frekar öfugt samband á milli nýliðunar og hrygningarstofns. Mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að velta fyrir sér þeirri miklu þorskgengd sem er núna við Grænland, hann ætti að velta fyrir sér spurningunni: Hvaða stóri hrygningarstofn kom af stað þeirri miklu nýliðun sem er á ferðinni við Grænlandsstrendur? Þar var enginn hrygningarstofn, það var engin þorskgengd við Grænland, heldur virðast eingöngu umhverfisskilyrði hafa breyst og þess vegna orðið sú mikla þorskgengd sem er þar þessi árin. Þegar fiskurinn er á mörkum útbreiðslusvæðis síns og skilyrði verða hagstæð fyrir þorskinn blómstrar hann. Menn ættu að skoða þessi mál í grunninn áður en þeir reyna að stjórna fiskveiðum fyrir utan 200 mílur með þeim aðferðum sem hafa ekki gefist innan landhelginnar.

Ég held líka að við verðum að velta þessu fyrir okkur frá ýmsum öðrum hliðum. Hver á að fá að nýta þau réttindi sem myndast ef við náum að hrekja þessa útlendinga í burtu? Eru það þeir sem eiga hlutdeild í þeim stofni fyrir eða eigum við að nota þau tækifæri sem gefast þar og gefa nýliðum kost á að reyna sig? Það er einmitt það sem íslenskur sjávarútvegur þarf á að halda, nýliðun, en ekki endilega að mylja undir þá sem fyrir eru í greininni. Mér finnst að við verðum að skoða í alvöru hvernig við ætlum að haga þessari atvinnugrein í framtíðinni. Það er ekki vænlegt að halda áfram með þetta kerfi. Það sér maður ef maður fer hringinn í kringum landið, fer í sjávarbyggðirnar, það er engin nýliðun í þessari atvinnugrein. Eins og kom fram hér fyrr í kvöld eru sjómenn látnir taka þátt í því að leigja aflaheimildir og fyrirtækin sem hafa komist yfir aflaheimildir eru skuldsett. Við verðum að horfa til framtíðar og sjá hvernig við getum nýtt auðlindina betur en nú er gert.

Tækifærin eru vissulega fyrir hendi en þá þurfum við að auka veiðar. Við í Frjálslynda flokknum viljum opna fyrir nýja aðila í greininni en alls ekki fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað, að reyna að loka allt af. Í þessu frumvarpi á jafnvel að fara að loka úthafinu á þeim svæðum sem við höfum ekki lögsögu yfir.