133. löggjafarþing — 78. fundur,  27. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[00:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um nein sérstök ný tíðindi sem fulltrúar Hafrannsóknastofnunar séu að kunngera. Við þekkjum það öll og það hefur margoft komið fram og kom m.a. fram í nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar að þar á bæ telja menn að skynsamlegast væri að lækka veiðihlutfallið í þorski frá því sem ákveðið hafði verið. Ég tók hins vegar aðra ákvörðun, ég tók þá ákvörðun að viðhalda þessari veiðireglu með breyttum hætti að vísu sem við höfum fylgt undanfarin ár. Ég féllst ekki á þau sjónarmið sem uppi voru, það voru ekki beinlínis tillögur heldur sjónarmið sem uppi voru um að lækka þessa veiðireglu og það er kunnugt. Ég tók þá ákvörðun að halda mig við veiðiregluna með breyttri útfærslu sem leiddi til meiri afla en gamla veiðireglan hefði annars leitt til.

Þau gögn sem verið er að vísa til eru væntanlega þau gögn sem lágu fyrir og hafa legið fyrir í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar og hugsanlega með einhverjum viðbótum sem hafa komið fram opinberlega eins og t.d. haustskýrslan sem m.a. leiddi í ljós að það var meira innan í fiskinum en áður hafði verið, t.d. hærra hlutfall loðnu sem út af fyrir sig er merkilegt.

Varðandi merkingagögnin sem hv. þingmaður var að vísa til þá eru það gögn sem Hafrannsóknastofnun hefur undir höndum og hefur verið að fjalla um. Ég hef tekið eftir að hv. þingmaður hefur verið að skiptast á skoðunum við tiltekinn fiskifræðing hjá Hafrannsóknastofnun um þau mál og ég tel að það væri ágætt fyrir sjávarútvegsnefnd, án þess að ég ætli að skipta mér af verklagi hennar, að heyra þau sjónarmið sem liggja til grundvallar af hálfu Hafrannsóknastofnunar um þessi mál og frá öðrum aðilum sem kunna að hafa aðrar skoðanir.