133. löggjafarþing — 78. fundur,  27. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[00:05]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í fréttatíma sjónvarpsins í kvöld var það að heyra á forstjóra Hafrannsóknastofnunar að einhver ný tíðindi væru á leiðinni og þess vegna fyndist mér ágætt ef tekin yrðu af öll tvímæli um að svo sé ekki.

Hvað varðar merkingagögnin þá er gott að heyra að hæstv. sjávarútvegsráðherra muni ganga til þess verks að gerð verði betur grein fyrir þessum gögnum. Vegna þess að ef gerð er grein fyrir þessum gögnum þannig að skil á merkjum sjáist frá ári til árs er hægt að reikna út dánartöluna með nokkuð óyggjandi hætti. Ég tel að það væri mjög þarft verk að fara yfir það vegna þess að þá er hægt að ganga úr um skugga um það hvort þessi veiðiregla er eitthvað að virka. Ég leyfi mér að efast um að svo sé og hvers vegna geri ég það? Í fyrsta lagi með vísan í þessa merkingatilraun og í öðru lagi hefur uppbyggingarstarfið ekkert gengið eftir. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að menn skoði þessa hluti með gagnrýnum hætti, fari í gegnum þetta og ýti þessu ekki út af borðinu. Mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé ekki að stuðla að því að þessi gögn séu skoðuð með þeim sem hafa gagnrýnt það að dánartíðnin, náttúrulegur dauði, sé meiri en stofnlíkönin gera ráð fyrir. Mér finnst tímabært að hæstv. sjávarútvegsráðherra skoði það, þó svo að það raski að einhverju leyti grundvelli hans að hægt sé að stjórna þessum veiðum í kringum landið með einum landskvóta. Ég veit að það er æskilegt út frá því sjónarhorni sem (Forseti hringir.) hagfræðingar og lögfræðingar vilja stýra þessu en það er arfavitlaust út frá (Forseti hringir.) líffræðilegum sjónarhóli.