133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig áhugavert álitaefni hvort tvísköttunarsamningar eigi að vera bornir upp á Alþingi eða ekki. Það hefur hins vegar ekki verið hefðin hjá okkur sem hefur m.a. byggst á því að í skattalögum felur Alþingi ríkisstjórninni að gera tvísköttunarsamninga. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni hafa lögfræðingar velt fyrir sér hvort það væri rétt að þeir væru samt sem áður bornir upp á Alþingi, m.a. dómarinn í því máli sem þingmaður vísar til. Það er hins vegar athyglisvert að dómarinn kemst að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir þær vangaveltur sem hann er með um það hvort samþykkja beri samningana á Alþingi eða ekki, að eftir sem áður beri að fara eftir samningunum því að þeir séu ívilnandi fyrir skattborgarana og jafnframt að vegna hefðarinnar sé um lögmætar væntingar að ræða hjá borgurunum að eftir tvísköttunarsamningunum sé farið. Þar af leiðandi er ekki hægt á grundvelli þessa dóms að tala um réttaróvissu. Þvert á móti kveður dómarinn mjög skýrt á um að fara beri eftir samningunum þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið bornir undir Alþingi.

Ég hef ekki uppi neinar vangaveltur eða fyrirætlanir byggðar á þessum dómi um að breyta þeirri hefð sem hingað til hefur verið ríkjandi í þessum efnum. Það þarf eitthvað meira að koma til en þessi dómur því að hann undirstrikar að ekki er um réttaróvissu að ræða hvað þetta varðar.