133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það sem skiptir hér máli er sú réttaróvissa sem nýfallinn dómur segir að ríki hér um tvísköttunarsamninga. (Gripið fram í: Um jafnréttismálin?) Það er grafalvarlegt þegar fjölmargir sérfræðingar á þessu sviði tala um að miklir hagsmunir séu í uppnámi eins og hefur verið gert í fjölmiðlum þannig að réttaróvissan liggur alveg fyrir hvort sem ráðherrum líkar það betur eða verr. Viðbrögð ráðherrans hér í dag eru ekki ásættanleg. Það er hlutverk þessa salar að bregðast við réttaróvissu og láta stjórnarskrána njóta vafans.

Í viðskiptum þýðir óvissa aukinn kostnað eða töpuð viðskipti. Hvorugt viljum við sjá. Eins og viðskiptalífið veit best hefur þessari ríkisstjórn mistekist að laða hingað erlenda fjárfesta sem finnst þetta hagstjórnarumhverfi einfaldlega ekki aðlaðandi, og ekki batnar það ef réttaróvissa ríkir um tvísköttunarsamninga. Það er mjög brýnt að hér sé brugðist við. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við hefðina því að það liggur alveg fyrir að skattlagningarheimildin er hjá Alþingi en ekki hjá ráðherranum. Ég sé sömuleiðis ekkert því til fyrirstöðu að tvísköttunarsamningar geti ekki verið lagðir fyrir þjóðþingið til samþykktar eða synjunar.

Því langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra af hverju hann vilji ekki bregðast við þessari réttaróvissu sem nú hefur fengist staðfest hjá dómstóli þessa lands og af hverju hann vilji ekki að þingið komi að tvísköttunarsamningum sem þó eiga að hafa bein réttaráhrif á fólkið í landinu.