133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:44]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur farið út um víðan völl og á köflum verið dálítið dularfull. Kemst ég þess vegna ekki hjá því að fara nokkuð víða í ræðu minni þótt stutt verði.

Bara út af einu atriði sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi í síðustu ræðu sinni vil ég geta þess að fáar ríkisstjórnir, ef nokkur, hafa gert meira til að búa til hagkvæmt, skilvirkt og gott umhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf en sú sem nú situr. Ég held að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson ætti ekki að ræða þau mál mikið vegna þess að sá samanburður sem kemur út úr því miðað við þær hugmyndir sem eru á sveimi í hans flokki varðandi atvinnulífið verður honum ekki í hag.

Varðandi aðra umræðu sem hefur átt sér stað hérna og vikið var að ætla ég í sjálfu sér ekki að blanda mér í hana að öðru leyti en því að lengi framan af umræðunni var næstum því vandræðalegt hvað hv. þingmenn Framsóknarflokksins struku formanni Vinstri grænna, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, blíðlega þangað til hv. 9. þm. Norðaust. kom úr allt annarri átt og gagnrýndi hann. Ég verð að segja að eftir flokksþing Vinstri grænna blasir auðvitað við að Vinstri grænir þurfa að svara því aðeins skýrar hvað það er sem þeir eru tilbúnir að selja í umhverfismálunum, og fyrir hvað og hvernig. Það er líka mikilvægt að Vinstri grænir geri aðeins grein fyrir þeim hugmyndum sem þeir orðuðu, hugmyndum sem ganga út á óvenjumikla forsjárhyggju, eftirlit og annað þess háttar (Forseti hringir.) eins og gerðist í gamla sósíalismanum á þeim bæ.