133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:13]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vill þakka hv. frummælanda fyrir að taka þessa umræðu upp. Málefni minni byggðarlaga og dreifbýlisins í heild eru auðvitað alltaf, eins og gefur að skilja og hér hefur komið fram, mjög margþætt og að þeim þarf að huga. Byggðarlögin eru fjölbreytt og búa við mismunandi atvinnuskilyrði og grunnþjónustu.

Það skiptir auðvitað allt samfélagið og þjóðfélagið mjög miklu máli að dreifbýlið fái að dafna og það gerist ekki nema innviðirnir séu traustir. Til innviða vil ég sérstaklega telja í þessu samhengi gott samgöngukerfi, aðgengi að menntun og gott fjarskiptakerfi sem innifelur m.a. háhraðatengingar sem verða til þess að hægt er að hafa gott aðgengi að menntun.

Samgönguáætlun miðar einmitt að því að styrkja hinar dreifðu byggðir og það hefur þá í för með sér að hægt verður að hafa lengri veg til atvinnusóknar.

Það hefur aldrei verið lagt jafnmikið í samgöngumál, þrátt fyrir orð hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur áðan, bein framlög úr ríkissjóði hafa bæst við hefðbundnar tekjur Vegasjóðs og söluandvirði Símans þar að auki.

En við vitum að grunnatvinnuvegirnir eru að tæknivæðast æ meir. Hagræðingin er sífellt að verða meiri og færri mannshendur þarf til í þau störf. Hins vegar verða til önnur störf sem taka við í tæknigreinum og þjónustugreinum. Vandinn er m.a. að leiða þau störf meira út í hinar dreifðu byggðir. Stoðkerfi atvinnulífsins þarf að líta til þessara þátta í hinum dreifðu byggðum og við þurfum að styrkja atvinnuþróunarfélögin. Byggðastofnun er til staðar, (Forseti hringir.) stoðkerfi landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Og þessar stofnanir þurfa að bregðast (Forseti hringir.) við og þurfa helst, hæstv. forseti, að vera skrefi á undan þróuninni.