133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:18]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði grannt eftir ræðu hæstv. iðnaðarráðherra áðan þegar hann svaraði þingmanni Samfylkingarinnar, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, um það hvað ríkisstjórnin hefði gert í þessum málum og hvernig ríkisstjórnin útskýrði það að ekkert sem hún hefur gert í byggðamálum hefur í rauninni tekist. Staðan er sú að fólki hefur fækkað víðs vegar um landið, ekki síst í þeim jaðarbyggðum sem komið var inn á í ræðu framsögumannsins, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur. Tekjugrunnur sveitarfélaganna hefur verið að hrynja, atvinnufyrirtækin eru að leggja upp laupana og hagvöxtur á þessum svæðum hefur verið enginn, hann hefur verið neikvæður á undanförnum árum á þessum svæðum. Ég hlustaði grannt, eins og ég segi, eftir því sem hæstv. ráðherra sagði.

Hann sagði okkur að í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar væru fjölmörg atriði um byggðamál. Hann sagði að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að það ætti að ríkja jafnræði, atvinnuöryggi og atvinnuþróun um allt land. En það er ekki jafnræði sem fólk býr við um allt land. Engin atvinnuþróun hefur átt sér stað víða um landið og atvinnuöryggi fólks er lítið sem ekkert, eins og við sjáum núna á þeim uppsögnum sem hafa átt sér stað fyrir vestan. Ef ráðherrann hefði flutt þessa ræðu í upphafi kjörtímabilsins, í upphafi þess 12 ára ferils sem þessi ríkisstjórn á núna að baki, hefði þetta kannski verið ágætlega samin ræða og skiljanleg en það er ekki hægt að bjóða þingheimi og þjóð upp á þessa ræðu núna. Þessi ríkisstjórn er búin að sitja í 12 ár og þessum byggðum blæðir út. Það þýðir ekkert núna að tala með þessum hætti.

Ríkisstjórnin er að verða uppvís að vanrækslusyndum sínum á hverju sviðinu á fætur öðru, í efnahagsmálum, öldrunarmálum og byggðamálum. Aðgerðir hafa verið of litlar (Forseti hringir.) og komið of seint og það er ekki hægt að bjóða þingi og þjóð upp á svona ræðumennsku (Forseti hringir.) í lok þings og lok 12 ára samfellds valdaferils.