133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er alveg sama hvort við tölum um þau svæði landsbyggðarinnar sem liggja utan hinna skilgreindu byggðarkjarna eða landsbyggðina almennt, staðan þar er grafalvarleg. Svo að aðeins sé nefnt tvennt, fjársvelti sveitarfélaganna, gjörsamlega óviðunandi afkoma minni og meðalstórra sveitarfélaga á landsbyggðinni, eða niðurskorin samgönguáætlun, nægir það til að rökstyðja hversu hörmulega illa hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að málum í þessum efnum.

Ef við tökum svæði eins og suðurfirði Austfjarða, Djúpavog og Breiðdalsvík, eða norðausturhornið upplifa menn sig þar meira og minna utan garðs og yfirgefna í sinni erfiðu varnarbaráttu í byggðamálum. Vandinn er sá að almennt eru ráðstafanir á sviði byggða- og jöfnunaraðgerða máttlausari en þær hafa verið um langt árabil. Það er ósköp einfaldlega minna lagt til þeirra hluta og verr þar að verki staðið en verið hefur sennilega nokkru sinni síðan við fórum yfir höfuð að tala um eitthvað sem héti byggðamál, byggðaaðgerðir, byggðajöfnunaraðgerðir á Íslandi. Veruleikinn er sá að þessi málaflokkur hefur verið að dragast upp æ síðan hann var fluttur frá forsætisráðuneytinu og til iðnaðarráðuneytisins, til Framsóknarflokksins. Það er veruleikinn sem menn verða að horfast í augu við, að Framsóknarflokkurinn tók við þessum málaflokki fyrir bráðum átta árum og það hefur aldrei verið jafnilla og -sleifarlega að verki staðið þrátt fyrir eitthvert hjal um annað.

Þetta er veruleikinn. Þar af leiðandi er það þannig að eitt af því brýnasta sem þarf að gera í þessum efnum, fyrir utan auðvitað að fella ríkisstjórnina og skipta þar um, er að frelsa málaflokkinn undan Framsóknarflokknum, frelsa byggðamálin undan Framsókn sem gjörsamlega hefur brugðist í þessum efnum. Þetta verður hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að horfast í augu við, og því fyrr sem hann viðurkennir uppgjöf sína og lætur (Forseti hringir.) af embætti í þessum efnum, því betra.