133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:02]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þær breytingartillögur sem hér hafa verið fluttar eru í raun um nýtt frumvarp. Frumvarpið sem við ræðum um er um tæknilega útfærslu en breytingartillögurnar sem hv. þingmaður flytur eru um nýtt frumvarp. Ég geri athugasemd við það því að það fer ekki í þrjár umræður. Það fer ekki til nefndar og fer ekki til umsagnar.

Ég minnist þess einnig að þegar við samþykktum lögin í vetur þá felldum við svipaða tillögu. Það er samkvæmt þingsköpum ekki leyfilegt að flytja sama málið tvisvar á sama þingi. En burt séð frá þessu tvennu er náttúrlega afskaplega mikil forsjárhyggja í frumvarpinu. Það á að hafa vit fyrir fullorðnu fólki, hvað það eigi að kaupa og hvað það eigi að gera. Það er svo merkilegt að þær vörur sem um er að ræða eru hátt skattlagðar í dag þannig að ætla mætti, með nákvæmlega sömu rökum og hv. þingmaður færir, að neyslan sé lítil. Maður mundi ætla að neyslan væri í lágmarki vegna þeirrar háu skattlagningar, bæði vörugjöld og hár virðisaukaskattur. Nei, neyslan er óskaplega mikil. Hún er svo mikil hjá unglingsdrengjum að ég efast um að þeir gætu torgað meiru. Fræðin um að hægt sé að stýra neyslunni með verðlagningu falla um sjálf sig með orðum hv. þingmanns.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann vilji þá ekki leggja til að hörð fita verði bönnuð eða skattlögð mikið, t.d. lambakjöt sem er gjörsamlega skattfrjálst. Með sömu rökum ættu menn að skattleggja það líka með vörugjöldum og virðisaukaskatti.

Varðandi það hvort við séum að þjóna gosdrykkjaframleiðendum þá er það náttúrlega út í hött. Þetta gengur út á að ekki þarf að hafa vit fyrir fullorðnu fólki.