133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að við fáum ekki innsýn í sálarlíf Sjálfstæðisflokksins í þeim undarlegu yfirlýsingum sem við heyrum hér. Foreldrar þessara barna stýra neyslu barna sinna. Staðreyndin er sú að það gera þau að sjálfsögðu að takmörkuðu leyti. Börnin hafa peninga handa á milli og síðan er spurningin hvernig þau verja þeim fjármunum, úti í búð, í frímínútum, í skóla eða þar sem þau fara.

Vil ég hafa vit fyrir börnum og unglingum í landinu? Já, okkur ber að gera það. Alþingi ber að setja lög og reglur sem eru líklegar til þess að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar, þar með æsku landsins. Að sjálfsögðu reynum við það.

Lýðheilsustöð, segir hv. þingmaður, hefur ekki löggjafarvald. Það er rétt. En Lýðheilsustöð starfar samkvæmt lögum. Lögum sem eru sett í þessum sal. Í lögum sem við settum um Lýðheilsustöð, ég held að hv. þingmaður hafi verið einn af þeim sem samþykkti þau lög, (Forseti hringir.) er skýrt kveðið á um að Lýðheilsustöð skuli ráðleggja okkur um (Forseti hringir.) um manneldisstefnuna. Það er það sem verið er að gera en þau ráð (Forseti hringir.) vill hv. þingmaður að engu hafa.