133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:09]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar er rétt að rifja upp að sú breyting sem hér liggur fyrir þinginu, það frumvarp, gengur fyrst og fremst út á tæknilegar lagfæringar til að auðvelda lækkun matarverðs sem taka á gildi um mánaðamótin. Þær breytingartillögur sem hv. þingmaður kemur með eru settar fram í kjölfar þess að þau sjónarmið sem þar búa að baki urðu undir þegar málið í heild var til meðferðar í þinginu í desember.

Ég hef ekki kannað hvernig það kemur út gagnvart þingsköpum. Það skiptir ekki höfuðmáli. Hins vegar er rétt að rifja upp að þingmenn tóku afstöðu til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður nefnir, í atkvæðagreiðslum í desember. Þar kom fram að verulegur meiri hluti þingsins, úr stjórnarflokkunum og Samfylkingu, studdi fyrirkomulagið sem varð að lögum og tekur gildi á morgun. En þau sjónarmið sem hv. þingmaður hafði uppi urðu undir í þeirri umræðu.

Ástæðan fyrir því er að breytingarnar byggðu á nokkrum meginforsendum. Breytingarnar sem fóru í gegn byggðu á því að lækka ætti matvælaverð í landinu, bæði á hollum vörum og óhollum ef út í það er farið og þær áttu að ganga út á það að einfalda kerfið. Einfalda átti skattlagninguna til þess að gera framkvæmdina skilvirkari og ódýrari. Það voru mjög skýr rök á bak við þessa breytingu.

Öll þessi rök sem fram komu, að ná fram lækkun matarverðs, lækka kostnað við dreifingu og sölu viðkomandi vöruflokka og að einfalda skattkerfið, (Forseti hringir.) þau standa.