133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir nánast allt sem hv. þingmaður sagði. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu um að ræða tæknilegar lagfæringar. Ég tek undir það. Þau sjónarmið sem ég talaði fyrir í desember urðu undir. Ég tek undir það. Þau urðu undir í nefndinni. Þau urðu undir á þingi en það kom jafnframt fram við umræðuna að ýmsir sem töldu ástæðu til að menn skoðuðu hug sinn fyrir 1. mars.

Ég vil með þessari tillögu, fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við erum einhuga í þessu máli, freista þess að ná fram lagabreytingu fyrir 1. mars, á fimmtudaginn næsta. Þetta er alveg rétt.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að það að vera með einsleita stefnu er einfaldara. Það er vissulega rétt. Ég get tekið undir það. En það er líka rétt, hefði ég haldið, að Lýðheilsustöð hefur beðið okkur um að gera þessar undantekningar á lagabreytingunni til þess að manneldissjónarmið séu virt. Það held ég að hv. þingmaður hljóti að taka undir með mér að beri að virða. Ég held að hann hljóti líka að taka undir það með mér að fulltrúar framleiðenda voru eindregið á því að lækka ætti þessi gjöld.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann. Hvort telur hann líklegra eður ei að sala gosdrykkja og sykraðra drykkja muni dragast saman eða aukast við þessa skattbreytingu?