133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:13]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom í raun að kjarna málsins þegar hann nefndi að málið snerist um það hvort við ætluðum að reyna að stýra neyslu landsmanna í gegnum skattkerfið. Þar held ég að liggi grundvallarágreiningurinn milli mín og hv. þingmanns. Ég er andvígur því í grundvallaratriðum að nota skattkerfið, þar á meðal kerfi óbeinna skatta, til að reyna að stýra neyslu neytenda frá einni vöru til annarrar.

Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að hafa skattkerfið einfalt. Ég tel mikilvægt að hafa það skilvirkt. (Gripið fram í: Hvað um niðurgreidda mjólk?) Ég held að við eigum að reyna að stíga sem flest skref í þá átt að hafa skattkerfið snyrtilegt, einfalt og þrepin lág. Ég held að það skili meiri tekjum til ríkissjóðs. Ég held að með því móti (Forseti hringir.) kæmumst við hjá þeim flækjum sem fylgja því að reyna að stýra í smáatriðum neyslu einstaklinganna.