133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verðlag í verslunum landsins ræðst ekki nema að hluta til af ákvörðunum sem teknar eru í þessum sal eða í Stjórnarráðinu. Þar skiptir skattlagning vissulega miklu máli. Mjög miklu máli. Þar koma einnig aðrir aðilar að sem eru framleiðendur og ekki síst dreifendur vörunnar. Og ábyrgð þeirra sem dreifa vörunni er hér mjög mikil. Menn hafa verið að gera að því skóna að matvöruverslanir og ekki síst stóru aðilarnir á matvörumarkaði hafi verið að hækka matvöruna fyrir skattalækkunina í stað þess að láta hana að öllu leyti renna í vasa neytenda. Það er mjög alvarlegur hlutur.

Ég er að lýsa ábyrgð, ég held að það gangi allt of skammt að tala um ábyrgð stjórnvalda í þessu efni því það er ekki síst ábyrgð þeirra sem dreifa vörunni sem hér skiptir (Forseti hringir.) máli.