133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta í upphafi hvort hún muni ekki gera reka að því að draga hæstv. heilbrigðisráðherra sem er í húsinu hingað til salar til þess að svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hana hafa verið lagðar. Mér fyndist nú vera mannsbragur á hæstv. ríkisstjórn ef hún hlypi ekki undan í felur með röksemdir sínar í þessu máli.

Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt frú forseti, að ég er ekki sammála þeim viðhorfum sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég tel að úr því að menn eru á annað borð að leggja í þennan leiðangur þá sé rétt að gera ekki þessar undantekningar. Þetta gerði ég algjörlega skýrt í máli mínu þegar það var rætt hið fyrsta sinni. Reyndar hafði ég nokkrar athugasemdir við þá meðferð sem hæstv. ríkisstjórn hafði þá á þessum þætti málsins.

Ég vil hins vegar, frú forseti, koma hingað til þess að inna hv. þingmenn stjórnarliðsins eftir því hvort þeir geti komið hér upp og staðið við þau stóru orð sem þeir létu falla þegar verið var að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um lækkun á matarverði síðastliðið haust.

Af því að einn af talsmönnum og vonarpeningum hæstv. stjórnarliðs er hér staddur, hv. þm. Birgir Ármannsson og einnig hv. þingmaður Sæunn Stefánsdóttir, sem bæði hafa góð tök á því að skýra mál sitt og eru með efnilegustu þingmönnum sinna flokka, þá fyndist mér ekki að úr vegi væri að þeir tveir þingmenn kæmu hér og greindu okkur, hinu háa Alþingi frá því hvernig er komið með þá verðlækkun sem hæstv. ríkisstjórn lofaði.

Á sínum tíma var það Samfylkingin sem klappaði hér steininn og lagði fram ár eftir ár það frumvarp sem að síðustu var samþykkt að hluta til af hæstv. ríkisstjórn. Samfylkingin lagði hér fram á þremur eða fjórum þingum frumvarp til laga um að lækka virðisaukaskatt, taka neðra þrepið úr 14% niður í 7%. Þetta var hluti af kosningastefnu okkar. Og reyndar líka kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þessi tillöguflutningur okkar og sá flutningur sem við höfðum hér uppi fyrr í haust þegar við lögðum fram ítarlegar tillögur sem miðuðu að því að lækka verulega þann 750 þús. kr. kostnað sem heimilin hafa í þessum flokki útgjalda, eða um 200 þús. kr. Það var einungis það sem leiddi til óðagots og írafárs í liði ríkisstjórnarinnar og varð til þess að korteri fyrir þing þá var boðað að slíkar tillögur yrðu lagðar fram. Við munum síðan vandræðaganginn sem var þegar þær tillögur komu. Þær voru ekki tilbúnar og það lá alveg ljóst fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafði svo hratt á hælum í þessu máli að hann hafði ekki tíma til þess að undirbúa þær tollalækkanir sem hann lofaði þá og enn hafa ekki séð dagsins ljós.

En punctum saliens í þessu máli, frú forseti, er að ríkisstjórnin lofaði þá að þessi lækkun leiddi til 16% minnkunar á kostnaði heimilanna á þessu sviði útgjalda. Nú liggur það fyrir að það eru bornar miklar brigður á að það gangi eftir. Það er að sönnu rétt að hæstv. ríkisstjórn hefur lækkað sig niður í 14,5%. Þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að 16% sem hún lofaði í upphafi hafa þegar verið svikin.

En þar að auki hafa bæði talsmenn neytenda, talsmenn þeirra sem selja matvöru og líka forustuliðið í Alþýðusambandi Íslands lagt fram gögn sem sýna fram á að lækkunin verður miklu minni. Því er haldið fram að hún verði í besta falli 12%. Í versta falli einungis 8%. Margt bendir til þess að hún verði þar mitt á milli, í kringum 10%.

Þess vegna langar mig að spyrja þennan samanlagða her hv. stjórnarþingmanna hvað valdi þessu. Og hvort það sé þannig að þeir geti staðfest að sú lækkun sem nú er undir og á að koma til framkvæmda 1. mars, verði þessi 16%. Eða er það rétt sem menn halda fram að hún verði hugsanlega helmingi minni? Þar skakkar býsna miklu og ég tel að stjórnmálamenn sem vilja taka mark á sjálfum sér verði að vera ábyrgir og þeir verði að standa við orð sín. Þess vegna finnst mér af þessu tilefni að það sé tímabært að hv. talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessum málaflokki komi hér upp og segi okkur undanbragðalaust, hver staðan sé í þessu máli.

Er það þannig að hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal, hafi verið að fara með rangt mál þegar hann mærði þessar tillögur hæstv. ríkisstjórnar í haust og tók undir að líklegt væri að þarna yrði dregið úr kostnaði heimilanna á þessu útgjaldasviði um 16%?

Ég held að það sé rétt að hv. þingmaður svari því og mér þætti líka vænt um að hv. þm. Birgir Ármannsson sem er einn af þeim sem er í talsmannshlutverki í efnahagsmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn skýri þetta líka. Spurningin er einfaldlega þessi: Hvað munu þessar breytingar sem taka gildi 1. mars, eftir tvo daga, leiða til mikillar lækkunar? Standa þeir við þessi 16% eða var það bara partur af kosningaskruminu? Var það bara partur af loforðaflaumnum sem virðist að mörgu leyti eigi ekkert að standa við?

En ég tel að það sé nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gefi skýr svör við þessu og þeir verða örugglega inntir eftir því 1. mars þegar hinn náðugi dagur rennur upp en mér finnst að hv. þingmenn eigi að taka aðför að því að byrja að tala sig út úr þeim vanda sem þeir hafa komið sjálfum sér í með hástemmdum yfirlýsingum sínum og taugaveiklun í upphafi þingsins.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að það væri hægur leikur að ná þessum 16%. En það verður ekki gert með þeirri aðgerð sem samþykkt var í haust og nú er verið að gera tæknilegar útfærslubreytingar á. Það verður einungis gert með því að taka rösklegt skref varðandi afnám tolla á innfluttum varningi af þessum toga. Á sínum tíma sagði hæstv. fjármálaráðherra að þær tollalækkanir sem hann áformaði mundu duga til þess að samanlagt afnám af vörugjaldalækkun virðisaukaskatts og tollalækkanir mundu ná þessum 16%.

En það hefur enginn heilvita maður enn þá getað sýnt fram á það með nokkrum rökum og enginn óheilvita hefur einu sinni reynt það. Þannig að ég bíð nú eftir því að hinir vösku þingmenn þessara tveggja flokka skýri þetta út fyrir mér. Því eins og kom fram fyrr í dag þá deili ég því með hv. þm. Birgi Ármannssyni, að miðað við þingmenn hef ég bara slaka meðalgreind og mér gengur illa að ná þessari tölu, 16%, og nú skora ég á hv. þingmann að sýna fram á að hann standi mér framar í reikningskúnstinni að þessu leyti.