133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:29]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki veit ég hvort ég er fremri hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í reikningskúnstinni. En hitt veit ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson er fremri hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í skilningi á markaðskerfinu. Vegna þess að í andsvari áðan kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni ákveðinn skilningur á því að það er margt annað sem hefur áhrif á matvælaverð í landinu en þær ákvarðanir sem eru teknar hér í þessum sölum.

Þannig að mat á því hvaða áhrif einstakar aðgerðir hafa er auðvitað aldrei 100% eða óumdeilanlegt. Það hefur komið fram í þessu máli að þrátt fyrir að allir séu sammála um að þær breytingar sem við samþykktum á skattalögunum fyrir jólin og munu koma til framkvæmda á fimmtudaginn muni skila verulegum lækkunum, þá eru ekki til vísindalegar aðferðir til að komast að óyggjandi niðurstöðu um það hver sú prósenta verður.

Það er alveg rétt að í upphafi þegar ríkisstjórnin kynnti tillögur sínar eða áform í október, þá voru menn að vinna með töluna eða miðuðu við töluna 16%. Þá var verið að skoða lækkunina á virðisaukaskattinum. Þá var verið að skoða lækkun eða niðurfellingu á vörugjöldum og breytingar á tollum. Og það var mat fjármálaráðuneytisins á þeim tíma að það væri um að ræða að þessar aðgerðir ásamt og með, sem er reyndar rétt að nefna, samkomulagi við mjólkurframleiðendur um verðstöðvun á mjólk, mundu skila 16% þegar upp væri staðið.

Nú hafa menn verið að taka einstaka þætti og endurmeta þetta. Þegar við afgreiddum frumvarpið fyrir jólin þá voru tölurnar sem við vorum að vinna með þær að sennilega mundu breytingarnar skila svona 12–14% lækkun. Það er auðvitað rétt eins og komið hefur fram að talsmenn í versluninni og fleiri aðilar hafa haldið fram að lækkunin yrði (Forseti hringir.) minni. En aðalatriðið er að (Forseti hringir.) það verða verulegar lækkanir og hver prósenta ræðst auðvitað af fleiri þáttum en þeim lagabreytingum sem við samþykktum hér.