133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:34]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað með ólíkindum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit betur. Hann veit auðvitað að þegar við tökum ákvarðanir í þessum þingsal um breytingar á skattalögum getum við ekki sagt með fullri vissu fyrir um hvaða afleiðingar það nákvæmlega muni hafa. Við getum haft áhrif á þróunina en við getum ekki stýrt hlutum í smáatriðum þannig að það skili einhverri tiltekinni útkomu, t.d. á matvörumarkaðnum þar sem verðlagning er almennt frjáls. Það er ekki svo að verðlag út úr búð sé ákveðið af opinberri nefnd. Það er ekki svo. Við stjórnum sköttunum. Ríkisstjórnin hefur staðið við það sem sagt var í sambandi við skattana. Skattarnir, virðisaukaskattur og vörugjöld, eru raunar lækkaðir meira en fram kom í áformum manna í upphafi. Stærri skref eru stigin í skattalækkunum núna 1. mars en áformin stóðu til. Það er gengið lengra í þeim efnum og það er það sem við höfum fulla stjórn á. Við höfum stjórn á því hvaða prósenta er úr skattinum, hvert útsöluverðið verður nákvæmlega ræðst af fleiri þáttum. Það er lykilatriði í þessu máli.

Hins vegar vildi ég bara geta þess af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti ágæta ræðu hér áðan að ég saknaði þess nokkuð að hann kom aðeins að óverulegu leyti inn á það í máli sínu hvað frumvarpið sem við fjöllum um felur í sér. Kannski saknaði ég sárlegast að hann skyldi ekki gera okkur grein fyrir sjónarmiðum sínum um þær breytingartillögur sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur mælt fyrir, að hann skyldi ekki koma með ítarlegan rökstuðning fyrir sínu máli af því að í þeim efnum held ég að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson eigum góða samleið.