133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:13]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get vel skilið þær röksemdir sem hv. þingmaður teflir fram um að hann ali þá von í brjósti að geta stýrt neyslu einstaklinga frá óhollum vörum yfir í þær hollari en reynslan sýnir að það virkar ekki. Við höfum reynt leið hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Við erum með hæstu sykurskatta í heimi á gosdrykkjum en hins vegar er hér einna mest neysla á gosdrykkjum. Það er skýr vísbending um að þessi aðferðafræði virkar ekki. Hv. þingmaður spyr af hverju gosdrykkjaframleiðendur vilji fá þessa lækkun í gegn en á móti bendi ég á að Neytendasamtökin vilja líka fá þessa lækkun í gegn. Aðilar markaðarins vilja fá þessa hagsmuni gegn. Ég get fullyrt að almenningur vill sjá þessa lækkun komast í gegn.

Að sjálfsögðu get ég alveg deilt þeirri skoðun og því markmiði hv. þingmanns að við eigum að auka möguleika almennings á að neyta hollrar vöru á sem hagstæðustu verði. Ég tek að sjálfsögðu undir það en þá bendi ég aftur á hin svokölluðu staðkvæmdaráhrif, að hátt verð á gosdrykkjum heldur uppi háu verði á hollum drykkjum þannig að ef við lækkum verð á gosi mun verð á t.d. vatni, sódavatni, lækka. Ég el þá von í brjósti að vörur sem við almennt teljum hollar vörur muni verða ódýrari. Ég held að rétta leiðin til að sporna við óhollustunni sé ekki að fara skattlagningarleið Vinstri grænna heldur frekar í gegnum forvarnirnar. Það er leið sem hefur sýnt árangur og ég nefni aftur Latabæ. Skattlagningarleiðin hefur verið farin en hún hefur því miður ekki gengið. Ég væri alveg til í umræðu um hana ef hægt væri að benda á að há skattlagning hefði áhrif á almenna neyslu og þá skal ég vera til umræðu um þá stöðu. Sú staða er ekki uppi, aftur á móti hefur þetta þær afleiðingar að hollari vörurnar verða dýrari fyrir vikið eins skrýtið og það hljómar.