133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:22]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat þess áðan í andsvari að ríkisstjórnin hefði tekið risaskref í að lækka skatta allt kjörtímabilið. Ég náði því miður ekki þá að telja upp allar skattalækkanirnar en ég mun gera það í ræðu á eftir, eftir minni og ég ætla að vona að ég gleymi þá engu. Það er svo mikill fjöldi af skattalækkunum að það eru vandræði að muna þær allar saman. Við erum hér með síðasta skrefið af fjöldamörgum ágætum skrefum í stórlækkun á sköttum. Það er ágætt að hv. þingmaður minni mig á það hvað skattarnir hafa lækkað mikið. Auðvitað verður eitthvert skref síðast. Það liggur í hlutarins eðli. Ekki geta öll skref verið fyrstu skrefin þannig að ég býst við að menn muni halda áfram á þeirri braut að lækka skatta hér eftir sem hingað til ef minn flokkur heldur velli. Þetta er á stefnuskrá hans og hann hefur sýnt það að hann stendur við það að lækka skatta. Það hefur gefið atvinnulífi og einstaklingum nýjan kraft sem við sjáum (Forseti hringir.) í blómlegu atvinnulífi.