133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er umræða sem við fórum í gegnum fyrir jól og ekkert nýtt sem kemur fram í henni. Þá var erindi Lýðheilsustöðvar líka til umræðu og þá var sagt og hægt er að endurtaka það að sú leið sem er farin er nokkurs konar millileið. Ljóst er að stjórnarandstaðan er afar ósammála í málinu og ef ég reyni að draga upp helstu línur í stuttu andsvari þá er það þannig að Samfylkingin er yst á öðrum kantinum ef svo má segja, vill einfalt skattkerfi og hefur litla trú á því að hinar svokölluðu neyslustýringar hafi mikil áhrif miðað við hvernig þeir orðlögðu sig hér fyrir jól og Samfylkingin vill sem sagt ekki hærri gjöld hvorki á gosi, sykri né sætindum. Þetta er sem sagt annað sjónarmiðið og þetta styður Samfylkingin.

Vinstri grænir eru yst á hinum kantinum og vilja halda gjöldunum háum á, eins og ég hef skilið það, sykri og sætindum og líka gosdrykkjunum. (ÖJ: En Frjálslyndir?) Ég man ekki í augnablikinu hvað Frjálslyndir nákvæmlega vilja, en stjórnarflokkarnir hafa valið millileiðina, þ.e. að halda gjöldunum háum á sykri og sætindum. Það er sú leið sem var valin.

Ég legg mikla áherslu á að við höfum áhrif á neysluna með fræðslu. Ég held að mjög mikilvægt sé að draga það fram og vísum sérstaklega til ábyrgðar foreldra varðandi það hvað börnin láta ofan í sig. Þá er ekki eingöngu verið að tala um gosið heldur sykur, sætindi og skyndibita sem því miður er allt of mikið á boðstólum í dag. Ábyrgð foreldra er því geysimikil í þessu sambandi.