133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nú einmitt það sem ég var að gera, ég var að lýsa því að við værum að fara ákveðna millileið og dró það upp að stjórnarandstaðan væri mjög ósammála í afstöðu sinni í þessu máli þar sem Samfylkingin vill annars vegar hafa einfaldar línur og vill ekki halda gjöldunum háum á þeim vöruflokkum sem við erum að ræða um, gosi, sykri og sætindum. (ÖS: Mjög skýrar línur hjá okkur.) Mjög skýrar línur, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og hefur ekki trú á neyslustýringunni sem í þessu felst og hefur fært rök fyrir því og það voru svo sem ágæt rök sem voru færð fyrir því hér fyrir jól af þeirra hálfu.

Vinstri grænir eru yst á hinum kantinum og vilja halda gjöldunum háum á þessum vöruflokkum, sykri, sætindum og gosi, en ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið millileiðina, þ.e. að halda gjöldunum háum á sykri og sætindum. Það er það sem ég er að draga hér fram. Þetta er sú millileið sem valin var og ég get endurtekið það aftur að ábyrgð foreldranna er að mínu mati geysilega mikil og við eigum að einbeita okkur að því að reyna að hafa áhrif á þá og ekki bara gagnvart sætindum og sykri heldur líka gagnvart öðrum matvælum sem börn eru að láta ofan í sig í of miklum mæli. Ekki má heldur gleyma mikilvægi hreyfingar í sambandi við offituna en þar er vandi á ferðinni og foreldrar þurfa að koma miklu sterkar inn í að taka á þeim málum með skólakerfinu og ég bind vonir við að menn fari að taka sig á í þeim efnum.

Ríkisstjórnin valdi sem sagt þessa millileið á meðan stjórnarandstaðan er mjög klofin í afstöðu til málsins og styður algjörlega sitt hvora hugmyndafræðina.