133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[16:46]
Hlusta

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (U):

Virðulegur forseti. Ég mæli nú í þriðja sinn á Alþingi Íslendinga fyrir frumvarpi til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, frumvarpi um viðurkenningu táknmáls annars vegar og hins vegar frumvarpi á þskj. 939, svokölluðum bandormi, þar sem gerðar eru nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að styðja réttarstöðu þeirra sem nota íslenska táknmálið, einkum hvað varðar rétt til að nota það í samskiptum við ríki, sveitarfélög og stofnanir.

Sem fyrr eru margir mætir meðflutningsmenn, og að þessu sinni úr öllum þingflokkum, með mér á frumvarpinu. Í því er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem tala íslenska táknmálið jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkaþjónustu.

Ég ákvað að nota hugtakið „fyrsta mál“ í 1. gr. frumvarpsins af því að skilgreiningin sem gefin hefur verið á hugtakinu móðurmál í orðabanka Íslenskrar málstöðvar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það mál sem er talað í því landi sem maður fæðist í og er talað af þeirri fjölskyldu sem elur mann upp telst vera móðurmál manns.“

Þessi skilgreining getur ekki gilt um heyrnarlausa almennt því að 98% heyrnarlausra fæðast í heyrandi fjölskyldum. Táknmálið er því í flestum tilfellum áunnið mál á heimilinu þegar barn fæðist heyrnarlaust í heyrandi fjölskyldu sem hefur íslensku að móðurmáli sínu.

Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma. Þeir munu geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu. Þeir þurfa ekki lengur að betla af t.d. vinnuveitendum að þeir greiði fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það styrkir sjálfsmynd töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika til bæði launahækkana og þess að vinna sig upp og heyrandi starfsmenn.

Daufblindir eru þeir sem hafa skerta eða enga heyrn og skerta eða enga sjón samtímis. Daufblinda, sem nota snertitáknmál, er þess vegna sjálfsagt að taka með enda er þar um að ræða fámennasta hóp fatlaðra hér á landi ef svo má að orði komast. Þeir þurfa þó einhverja sérhæfðustu þjónustuna á forsendum samskipta og á táknmál að skipa þar stóran sess. Þessir þrír hópar, heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir, eiga táknmálið sameiginlegt og því má enginn þeirra vera settur út undan.

Táknmál á að vera þessum þremur hópum sjálfsagt aðgengistæki að upplýsingum, námi, menningu og daglegu lífi. Í þessu frumvarpi eiga réttindi þessara þriggja hópa á forsendum táknmálsins að vera tryggð, vera þeirra réttindaskrá.

Táknmál er á undanförnum áratug farið að sjást víða í samfélaginu. Má þar nefna grunn-, framhalds- og háskóla þar sem heyrnarlausir stunda nám með túlk sem aðgengistæki sitt að náminu. Heyrnarlausir hafa á síðustu missirum mikið látið að sér kveða, sér í lagi hvað varðar hagsmunamál sín. Þeir eru ekki lengur sá hógværi hópur sem löngum var nánast gleymdur.

Þetta er megininntak frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég hef tvívegis flutt þetta sama frumvarp hér. Þá hef ég stiklað á stóru um þá hluti sem nú þegar eru til staðar í þjóðfélaginu til handa heyrnarlausum. Núna langar mig að tala aðeins um núverandi stöðu mála og þá vísa ég í reynslu heyrnarlausra sjálfra í málum sínum í nútíð og fortíð. Einnig mun ég koma lítillega að sjálfsmynd heyrnarlausra.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið talað um niðurstöður könnunar á tíðni kynferðisofbeldisglæpa gagnvart heyrnarlausum fyrr á árum. Rannsókn þessi spratt af sögum sem voru annars fastar inni í samfélagi heyrnarlausra, þær komu upp á yfirborðið og urðu þjóðinni sýnilegar fyrir nokkrum árum, á svipuðum tíma og eiginleg umræða í þjóðfélaginu um kynferðisofbeldi var opnuð. Nú hefur verið gerð könnun sem staðfestir þennan orðróm „táknmáls götunnar“ ef svo má að orði komast um það sem hefur farið heyrnarlausum á milli í mörg ár í einangruðu samfélagi. Þeir reyndu að koma glæpnum sem framinn var á þeim á framfæri við stjórnendur skólans en uppskáru háð og þeim var ekki trúað. Þetta var bara meðhöndlað eins og kvittur á kreiki. Á þessum tíma var táknmál ekki talið æskilegt í kennslu heyrnarlausra hér á landi, þannig að mikilvæg skilaboð um velferð barna fóru forgörðum og komust aldrei til réttra aðila.

Þetta voru ekki þjóðsögur um einangruð tilfelli. Þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur í dag og ég fagna því sérstaklega hér að verið sé að vinna í þessum málum í ráðuneyti félagsmála nú í dag í samvinnu við Félag heyrnarlausra, Stígamót og aðra aðila sem að málunum koma.

Það er líka annað mál sem hefur angrað heyrnarlausa lengi og orðið þeim fjötur um fót í gegnum líf sitt, sérstaklega hvað varðar menntunartækifæri og starfsval fyrr á árum. Þeir voru sviknir um grunnskólamenntun og af sjálfu leiðir að þeir voru þá líka hlunnfarnir um framhaldsskólamenntun. Þetta er afar sérstakt.

Ég ætla aðeins að fara aftur í tímann, nú til ársins 1964 en það ár fæddust 36 heyrnarlausir einstaklingar vegna rauðra hunda faraldurs sem reið yfir landið veturinn 1963–1964. Þetta er stærsti aldurshópur heyrnarlausra og þeir gætu jafnvel verið fleiri því að á síðustu árum hafa sprottið upp í samfélagi heyrnarlausra einstaklingar sem tilheyra þessum hópi en komu aldrei í samfélagið af því að þeir bjuggu úti á landi, þeir kunna ekki táknmál og eru þar af leiðandi í enn verri stöðu en sá hópur sem er þó líka í slæmri stöðu hvað varðar menntun og atvinnumöguleika.

Við eðlilegar kringumstæður fæðast tvö til fimm heyrnarlaus börn á ári, litlu fleiri gætu bæst við sem missa heyrn af öðrum orsökum. Þessi hópur var sviptur grunnskólamenntun sinni og möguleikunum á framhaldsmenntun þegar til átti að taka við eðlileg aldursmörk framhaldsmenntunar. Það viðhorf sem var við lýði hjá skólastjórnendum á þessum tíma, sem var 1981–1982, þegar kom að starfsvali einstakra nemenda var einfaldlega „þú getur ekki“. Orðin „þú getur ekki“ ómuðu í hugum heyrnarlausra sem höfðu metnað fyrir framtíð sinni og að lokum fóru þau að trúa því að svo væri, hugsunin varð „ég get ekki“ og metnaðurinn hvarf.

Það voru karlar og konur æðri heyrnarlausum sem sögðu þetta, orð þeirra voru heilög, þau heyrðu, voru eldri, menntaðri og í meira áliti hjá meiri hlutanum. Minni hlutinn tapaði í vali sínu á framhaldsmenntun sem átti að gefa þeim færi á framtíðarstarfi að eigin vali. Nú, röskum tuttugu árum síðar eða jafnvel rúmlega það því að þetta bind ég ekki við þennan eina hóp sem fæddur er 1964, þetta varðar líka þá sem á undan honum komu, heyr þessi hópur enn baráttu fyrir lífsgæðum sínum sem framhaldsmenntunin átti að færa honum en gerði ekki.

Lífsgæði aukast ekki af völdum grunnskólans sem lagði ekki þann grunn að menntun sem honum var þó skylt að gera. Þessir einstaklingar eru núna komnir hingað til löggjafarvaldsins og vilja fá stuðning ríkisvaldsins. Þeir vilja ekki fá sömu svör og síðast, „þú getur ekki“, eða í þá veru að stjórnvöld beiti fyrir sig vanmætti sínum enn og aftur, „við getum ekki“. Nei, heyrnarlausir vilja fá meira en það, þeir vilja viðurkenningu á tilveru sinni í landi sínu, viðurkenningu á getu, mannauði og réttindum sem þeim fylgja á forsendum táknmálsins.

Virðulegur forseti. Öllum sitjandi þingmönnum og ráðherrum þessa þings barst bréf frá heyrnarlausri konu, Önnu Jónu Lárusdóttur. Í bréfinu fór hún yfir minningar sínar frá barnæsku til dagsins í dag. Bréf hennar hljóðar upp á tvenn svik stjórnvalda við sig á ævinni. Fyrst þegar hún var ung stúlka í námi í Heyrnleysingjaskólanum þar sem hún fékk lélega kennslu, svo síðar þegar hún vann fyrir sér við að kenna heyrnarlausum börnum táknmál og menningu heyrnarlausra en var sagt upp vegna þess að hún hafði ekki kennararéttindi. Í lokaorðum bréfs síns segir hún orðrétt, með leyfi forseta:

„…ég vil ekki þola meiri útilokun. Mér finnst kominn tími til þess fyrir mig að fá tækifæri í lífinu og fá að njóta þeirra tækifæra sem mér finnst ríkið hafa svikið mig um.“

Þessi orð hennar eru líka orð alls samfélags heyrnarlausra. Ég spyr: Hvaða tækifæri? Ég geri mér í hugarlund hvaða tækifæra hún vill njóta, hún er 56 ára, hana langar að njóta þess sem lífið býður upp á núna. Hún vill vera laus við hindranir, vill sjá hvað samfélagið býður upp á og hvað er að gerast í því, fá að njóta þess að vera með fjölskyldu sinni, fá að nema og starfa laus við hindranir. Hún vill vera laus við áhyggjur af því hver borgar fyrir aðgengi hennar að þessu öllu, vill fá réttindi sín á forsendum táknmálsins tryggð í lögum. Hún vill gera það sama og þið gerið, hvað sem ykkur dettur í hug á hverjum tíma á líðandi stundu. Hún vill eiga sínar stundir rétt eins og aðrir.

Er hún að biðja um mikið? Þurftuð þið að biðja um þetta? Þurftuð þið sérstaklega að bera fram svo fróma ósk á hinu háa Alþingi, og það oftar en einu sinni?

Ég bið þess að stjórnvöld svíki hana ekki í þriðja sinn. Ég get ekki séð að það muni gerast, vil ekki trúa því, það er ekki hægt, ekki í landi okkar sem hefur verið dásamað fyrir að vera besta velferðarríki heims og með mestan hagvöxtinn af öllum. Jafnvel kaupmátturinn er dásamaður. Það er allt í lukkunnar velstandi hér ef marka má tölur sem stjórnvöld hafa gefið upp.

Það eru til peningar fyrir þennan litla hóp. Góð spurning er: Hvað kostar þetta allt? Ég spyr á móti: Hversu verðmætur er mannauðurinn? Og ég reyni að svara með því svari sem ég vil fá: Hann er það verðmætur að hann verður ekki metinn í stöðlum, prósentum, stigum og verðlagi. Mannauðurinn er það sem landið hefur orðið ríkt á, við Íslendingar eigum ekki bara miklar auðlindir til sjávar og sveita. Auðlindir okkar liggja líka í mannfólkinu, líka í táknmálsnotendum, reyndar öllum þegnum þessa lands.

Það er auðlind í frumvarpinu sem ég flyt nú.

Því miður eru enn að koma upp tilfelli þar sem mannauð er sóað. Það nýjasta er að sjö ára blindur drengur fær ekki kennslu í blindraletri og hann missir því af mikilvægu atriði í grunnskólamenntun sinni sem og fyrir alla lífstíð. Hann verður að fá að læra blindraletur svo að hann geti meðtekið þá grunnskólamenntun sem hann á fullan rétt á. Það verður að koma til móts við þarfir hans sem og annarra fötlunarhópa.

Ég veit að ég fór hérna aðeins út fyrir frumvarpið en ég varð bara að koma þessu að til að sýna enn frekar fram á að blindir, heyrnarlausir og aðrir fatlaðir eru ekkert frábrugðnir öðrum landsmönnum. Þeir hafa hæfileika, og hæfileika þeirra verður að virkja og nýta sem mannauð landsins. Til þess þurfa þeir sérstaka tækni, blindir þurfa blindraletur og hljóðbækur, heyrnarlausir þurfa táknmál o.s.frv. Þetta eru hlutir sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Ekkert kemur í stað þeirra. Það er því á ábyrgð ríkisvaldsins að sjá til þess að þessir hópar njóti fyllsta jafnræðis á við aðra og að enginn aðstöðumunur sé gerður hvað velferð þeirra varðar og framtíðarvæntingar til sjálfra sín.

Ég minni líka á áskorun sem Félag heyrnarlausra sendi öllum þingmönnum nú á dögunum.

Virðulegur forseti. Nú að nútímanum. Ég ætla að segja ykkur frá dæmum sem sýna hvað heyrnarlausir þurfa að kljást við dagsdaglega í samfélaginu þar sem réttindi þeirra á forsendum táknmálsins eru hvergi tryggð í lögum. Ég ætla að segja ykkur frá ungri konu. Hún er 30 ára og starfar sem leiðbeinandi í leikskóla sem heyrnarskert börn stunda leikskólanám sitt í. Hún skrifaði fyrir tæpri viku litla sögu um reynslu sína af að fá túlk. Eða að fá ekki túlk. Í meginatriðum sagði hún frá því þegar allir starfsmenn leikskólans áttu að fara á námskeið í nóvember sl. Hún komst ekki af því að ekki var til túlkur. Hún frestaði því til næsta námskeiðs sem var núna í febrúar. Þetta var tveggja daga námskeið, hún fékk bara túlk seinni daginn en ekki þann fyrri. Þetta var námskeið í skyndihjálp og slysaviðbrögðum. Hún fær ekki launahækkun af því að hún kláraði ekki námskeiðið að því ógleymdu að e.t.v. fór hún á mis við gagnlegar upplýsingar sem gætu komið sér vel í starfi.

Til er líka dæmi um heyrnarlausa foreldra heyrandi grunnskólabarns sem boðuð voru í foreldraviðtal í skólanum. Þau fóru á staðinn en þegar komið var á fundinn var enginn táknmálstúlkur til staðar.

Þetta er bara dropi í hafið.

Af stóru dæmunum er það að segja að í október 2004 var að tillögu menntamálaráðherra samþykkt af ríkisstjórn að hækka fjárframlag félagslegrar túlkaþjónustu sem yrði 10 millj. kr. árlega næstu þrjú ár. Sjóðurinn er núna á sínu síðasta ári. Hann er í daglegu tali nefndur félagslegi táknmálstúlkunarsjóðurinn. Þessi sjóður sem var ætlað að sinna hvers konar félagslegum verkefnum mun ekki greiða fyrir túlk vegna áfallahjálpar eða meðferðar í málefnum heyrnarlausra kynferðisofbeldisþolenda hjá Stígamótum. Það varð því að sækja um aukafjárveitingu til félagsmálaráðuneytisins upp á kr. 4,4 millj. til að mæta kostnaði vegna táknmálstúlkunar.

Lífdagar félagslega táknmálstúlkunarsjóðsins hanga á bláþræði nú á síðasta árinu sínu. Það sem honum var ætlað að sinna gekk í fyrstu en ekki lengur, það eru komnar takmarkanir á hann. Ástæðan er fyrst og fremst sú að með tilkomu hans opnaðist nýr möguleiki fyrir heyrnarlausa, þeir urðu meðvitaðri um það sem þeir gætu gert og áttu rétt á að gera rétt eins og aðrir landsmenn gera í tómstundum sínum – stunda íþróttir, taka þátt í félagslífi hvers konar og sinna erindum sem þeir mega til með að gera því að í lífi hvers manns koma tímabil þar sem þörf er á að hitta fagaðila, t.d. vegna hjúskapar, skilnaðar, fasteigna- eða bílaviðskipta, til að taka bankalán eða eiga viðtal við þjónustufulltrúa, jafnvel vera með í íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna.

Það er hægt að telja upp endalaust í hvað heyrnarlausir hafa notað það fé sem í sjóðinn var sett. Það sýnir að reynslan er komin á að tryggja verður fjármagn fyrir táknmálstúlkun á félagslegum forsendum. Ég harma að þurfa að segja það að 10 millj. kr. fjármagn sem veitt er í sjóðinn nægir engan veginn til að anna eftirspurn. Fyrsta árið eftir tilkomu hans varð hann tómur í nóvember. Notendur hans sátu því heima tvo síðustu mánuði ársins 2005. Í fyrra hefði hann átt að klárast fyrr, en gerði það ekki vegna þess að það vantaði túlka til að anna eftirspurn — aðstæður fyrir því voru barnseignarfrí og sömuleiðis eru kjaramál túlka í ólestri og nokkrir hættu. Þak var sett á yfirvinnu túlka.

Sjóðurinn sem átti að koma til móts við þarfir heyrnarlausra á forsendum jafnræðis, jafnréttis og mannréttinda gerir það ekki lengur. Hann er líka skilgreindur sem bráðabirgðalausn, sett fram eftir góðvild stjórnvalda á sínum tíma.

Ég ætla ekki að telja upp allar þær bráðabirgðalausnir sem hafa verið gefnar heyrnarlausum í gegnum árin, en engin þeirra hefur verið svo trygg og örugg að hún hafi fest sig í sessi. Ég get þó í stuttu máli sagt að á síðustu 13 árum hafa starfað fjórar nefndir á vegum stjórnvalda til að finna lausn á því hver eigi að greiða fyrir túlkaþjónustu heyrnarlausra. Úr starfi þeirra hafa komið einhverjar bráðabirgðalausnir en allar hafa þær verið í hálfgerðu skötulíki og engin þeirra orðið varanleg.

Um ástæður þessa ætla ég ekki að vera með vangaveltur. Það er einfaldlega enginn tími núna til að líta um öxl, núna verður að horfa fram á veginn og finna haldgóða lausn, og sú lausn má alls ekki verða nein bráðabirgðalausn. Samfélag heyrnarlausra þolir ekki fleiri bráðabirgðalausnir sem eru sprottnar af góðvilja eða geðþótta stjórnvalda. Það hafnar þeim öllum.

Samfélag heyrnarlausra vill núna lagasetningu og hér er ég að flytja það frumvarp sem getur leyst vanda okkar.

Virðulegur forseti. Ég fer senn að ljúka máli mínu. Áður ætla ég þó aðeins að víkja að stöðu túlkamála í dag, það er mikilvægt að hún komi fram. Það þarf að huga vel að þessum starfshópi sem í daglegu tali nefnist táknmálstúlkar. Það þarf að lögvernda starfsheiti þeirra og enn fremur huga að kjaramálum þeirra.

Staðan í túlkamálum í dag samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem ein annast táknmálstúlkun og heyrir undir menntamálaráðuneyti er þessi: Þar starfa nú sex túlkar og einn er í barneignarfríi. Til að öllum pöntunum hefði verið sinnt nú í febrúar hefði að lágmarki þurft að bæta við þremur heilum stöðum. Á skrá eru um 100 notendur. Tölulega séð vinnur einn túlkur á hverja 17 notendur. Ef allir þeir sem frumvarpið nær til, 220 manns, reyndu að nýta sér þjónustuna væri talan 35 notendur á túlk. Virkir notendur eru núna um 30 manns, þ.e. þeir sem panta túlk og fá vikulega. Vinnutími túlka er 20 túlkaðir tímar á viku. Sé litið til kynjahlutfalls í túlkastéttinni eru bara konur sem hafa útskrifast sem túlkar hingað til.

Það er rétt að geta þess að á síðustu tveimur árum hafa bæst við samfélag heyrnarlausra 18 heyrnarlausir nýbúar og þeir hafa nýtt sér táknmálstúlkaþjónustu í einhverjum mæli, með millitúlk eða þá bara sjálfir eftir því sem þeir hafa lært íslenskt táknmál. Einnig er rétt að geta þess að samkvæmt upplýsingum frá ráðgjafa Félags heyrnarlausra er von á allt að 10 heyrnarlausum útlendingum hingað til lands á næstunni og sá hópur hefur hugsað sér að setjast hér að og starfa.

Frá fyrstu útskrift táknmálstúlka úr Háskóla Íslands sem var árið 1997 hafa útskrifast 22 túlkar. Samkvæmt upplýsingum frá lektor í táknmálsfræðideild Háskóla Íslands eru nú 13 nemendur í táknmálsfræðum og átta í táknmálstúlkun. Það góða við táknmálsfræðinámið er að alltaf er einhver sem sér hagnýta hlið á náminu, þ.e. fer í táknmálsfræðinám og svo í annað háskólanám, t.d. kennaranám. Námið er því mjög hagnýtt. Táknmálsfræðinámið er tveggja ára nám og á þriðja árinu gefst nemendum kostur á að fara í túlkanám sem er eitt ár til viðbótar.

Ég lít á það frumvarp sem ég mæli hér fyrir sem réttindaskrá heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Þeim yrðu með samþykkt þess tryggð réttindi á forsendum táknmálsins. Frumvarp þetta kemur að hugtökum sem eru rík í okkur öllum sem höfum sterka réttlætiskennd og sýn á það hvernig lífi við viljum lifa og eigum rétt á. Þessi hugtök eru í daglegu tali nefnd jafnræði, jafnrétti, mannréttindi og frelsi einstaklingsins til að tjá sig og vera fullgildur þátttakandi í þjóðfélaginu. Frumvarpið er líka viðurkenning á tilverurétti heyrnarlausra hér á landi.

Að allra síðustu bið ég alla að hafa það í huga að öllum réttindum fylgja ákveðnar skyldur. Skyldur heyrnarlausra í þessu samhengi eru þær að þeir sjálfir láti vita af sér og túlkaþörf sinni og ég er viss um að þær skyldur verða virtar. Ábyrgð er lögð á herðar samfélags heyrnarlausra með samþykkt frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég legg til að þessu frumvarpi og næsta dagskrármáli verði vísað til menntamálanefndar. Með fylgja góðar óskir um að afgreiðsla þeirra miði að því að horft verði til framtíðar og að stjórnvöld taki þar með stærsta skref sem hefur verið tekið í málefnum heyrnarlausra hingað til.