133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:38]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka eins og aðrir hv. þingmenn Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir hennar góða frumvarp sem við ræðum hér í dag og liggur fyrir þinginu sem og það frumvarp sem er næst á dagskrá. Ég er einmitt einn þeirra 26 meðflutningsmanna sem á frumvarpinu eru úr öllum þeim stjórnmálaflokkum sem sitja á þinginu. Ég tel það vera mjög mikilvægt því að þetta mál er einmitt þess eðlis að það er hafið yfir flokkapólitík, það er hafið yfir dægurþras líðandi stundar, þetta er mál sem við öll þurfum hreinlega að taka á. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, ég vildi að ég gæti farið með ræðuna á sama tungumáli og framsöguræðan var flutt á og að sama skapi af sama baráttuhug og sama krafti og ég fann fyrir í máli hv. þingmanns, framsögumanns málsins, hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Ræðan var sannarlega áhrifarík og frumvarpið er vel unnið og sú greinargerð sem frumvarpinu fylgir er sömuleiðis áhrifarík og upplýsandi fyrir okkur sem að málinu komum og alla aðila.

Ég vil aðeins nefna hér í byrjun, frú forseti, að varðandi þau mál sem hv. þingmaður nefndi sem snúa að Heyrnleysingjaskólanum og þeim hópi sem þar var, þá er alveg rétt að þetta er mál sem samfélaginu öllu varð brugðið við. Þó að við hefðum um einhvern tíma heyrt af því og vitað af því er nauðsynlegt að fá það fram í dagsljósið og þetta er nokkuð sem við öll berum ábyrgð á og ég sem borgari í þessu samfélagi ber einnig ríka ábyrgð. Þetta er mál sem við verðum áfram að leiða til lykta, það er mikilvægt að sú rannsókn sem félagið sem um ræðir og fleiri aðilar og félagsmálaráðuneytið hefur látið vinna klárist og að menn fái öll spilin upp á borðið og vinni eins og hægt er úr afleiðingum þessa tíma.

Þetta mál snertir svo marga þætti samfélagsins, svo marga mikilvæga hluti, stöðu einstaklingsins í samfélaginu, samfélagið allt, réttindi hvers og eins, þjónustuna í samfélaginu og svo miklu meira. Þetta er í raun og veru angi af mun stærra máli og ég tek undir það sem sagt hefur verið í umræðunni að það er einfaldlega til skammar, og það ætla ég bara að viðurkenna og vera óhrædd við það, að við skulum ekki vera komin lengra í þróun og mótun þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda. Auðvitað getur maður nefnt fleiri hópa og ég vil kannski nefna sérstaklega menntunarmál blindra, blindra barna sérstaklega.

Við höfum verið svo lánsöm að á skömmum tíma hefur íslenskt samfélag gjörbreyst og færst til þess sem við þekkjum í dag. Hér ríkir sem betur fer almenn velsæld og hagsæld en það er samt okkar að tryggja að þetta verði áfram samfélag jafnra tækifæra og þá jafnra tækifæra allra sem í samfélaginu búa um leið og við getum tryggt þátttöku þeirra íbúa sem í landinu eru. Þetta frumvarp snertir nákvæmlega þetta og tekur að mínu mati á þessum grundvallaratriðum íslensks samfélags.

Ég vil líka nefna, frú forseti, að vera hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur á þinginu sýnir líka hvað það er einmitt mikilvægt að þingið sjálft endurspegli kannski betur þá þjóð sem þingið er hluti af, að á þinginu sitji fulltrúar kvenna, karla, ungs fólks, eldra fólks, fulltrúar hópa úr öllu samfélaginu. Þingið verður að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar og auðvitað reynum við það eftir bestu getu en ég held einmitt að vera hv. þingmanns um þessar mundir á þinginu sýni nauðsyn þess. Ég vildi draga það sérstaklega fram hér.

Um sjálft málið vil ég segja að mér finnst greinargerðin góð og frumvarpið þannig að kannski er ekki margt um það að segja. Vona ég að það nái eftir þessa umræðu að fara inn í hv. menntamálanefnd þar sem ég sit og mun ég leggja mitt af mörkum til að málið fái þinglega meðferð og efnislega umfjöllun. Það er okkar að stíga næstu skref í málinu og það er mikilvægt að það nái fram að ganga. Mun ég gera mitt til þess sem ég þykist vita að aðrir hv. þingmenn, þeir 26 þingmenn sem styðja þetta frumvarp, muni gera.

Í fyrri ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var talað um félagslega einangrun og eins og ég segi snertir þetta mál svo marga þætti í samfélagi okkar og svo marga fleti að við gætum haldið hér langar ræður en ég vil aðeins koma inn á þetta. Það er alveg rétt að bréf, sem minnst var á fyrr í umræðunni, sem við hv. þingmenn fengum sent vakti mann sannarlega til umhugsunar. Ég er reyndar sjálf þannig af guði gerð að ég á stundum við heyrnarleysi að stríða og þá verður manni oft hugsað til þeirrar stöðu þeirra sem um leið upplifa þá félagslegu einangrun sem heyrnarskerðing, og ég tala nú ekki um heyrnarleysi, er. En ég ætla að taka fram, frú forseti, að ég vil á engan hátt líkja stöðu minni við stöðu hv. þingmanns sem er framsögumaður þessa máls því að sú er alls ekki raunin, ég hef fengið öll þau tækifæri sem ég hef þurft á að halda en svona tímabundið og af og til velti ég þessu fyrir mér vegna þess að það hefur áhrif á mann og þá hugsar maður einmitt hvað heyrnin og þessi tækifæri til þátttöku og samskipta við ekki bara fjölskylduna og fólk í kringum mann heldur allt samfélagið eru manni mikilvæg.

Það er einmitt þetta sem er grundvallaratriðið í þessu frumvarpi að mínu mati, þessi jöfnu tækifæri til þátttöku í samfélaginu til samskipta og frumkvæðis og þess að fá að njóta og nota tækifæri sín og þau úrræði og þá kosti sem maður sjálfur býr yfir, að hafa hlutverk í samfélaginu og það er, held ég, það mikilvægasta.

Frú forseti. Ég vil bara að lokum lýsa ánægju minni með að frumvarpið skuli vera fram komið og ítreka að ég muni gera mitt til að það fái efnislega og þinglega meðferð í hv. menntamálanefnd sem ég veit að aðrir þingmenn munu gera líka. Vonandi náum við með þessum hætti að stíga stór skref fram á við í aðlögun, þróun og mótun þessarar mikilvægu þjónustu við þennan hóp því að það er sannarlega tími til kominn.