133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Ég er ekki meðal flutningsmanna málsins en vil lýsa því yfir að ég fylgi því mjög og held að þarna sé ákaflega gott mál. Ég lýsi í rauninni því yfir að sú þrautseigja og sá dugnaður sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur sýnt í því að vinna að málefnum heyrnarlausra og réttindamálum þeirra er mjög aðdáunarverð.

Það hefur verið mjög skemmtilegur sá tími sem hún hefur setið á þingflokksfundum í Sjálfstæðisflokknum þar sem hv. þingmaður hefur kynnt málefni heyrnarlausra á mjög skemmtilegan hátt. Hún er auðvitað yndisleg manneskja og með mjög góðan húmor. Hún er mjög fylgin sér og það hefur svo sannarlega fengið að koma fram á þingflokksfundunum. Ég held að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi upplifað það eins og ég að þarna fór mjög duglegur þingmaður sem á sannarlega góða pólitíska framtíð fyrir sér ef hún heldur áfram á þeirri braut. Það verð ég að segja. (ÖS: Aldrei segirðu þetta um mig.) Það er annað með hv. þm. Össur Skarphéðinsson, það má segja ýmislegt um hann en ég held að ég muni nú samt segja um hann (Gripið fram í: Hann á fortíð.) að hann á mikla fortíð og örugglega einhverja framtíð þótt ég vilji ekki spá miklu um það. (Gripið fram í.)

Þetta mál er ákaflega vel unnið og það eru miklar og greinargóðar upplýsingar sem koma fram í greinargerð frumvarpsins. Þar er mikill fróðleikur sem er mjög áhugavert að fara yfir og kynnast því sem þar kemur fram. Allt vekur þetta mikinn skilning í samfélaginu á nauðsyn þess að réttarstaða heyrnarlausra verði bætt og staða þeirra efld, bæði hvað varðar táknmálstúlkun og önnur þau atriði sem fram koma í greinargerðinni.

Það er einu sinni svo að til þess að vekja skilning í samfélaginu þarf að ræða málin, setja þau fram með skýrum og afdráttarlausum hætti og það hefur hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir auðvitað gert hér á sínu auðuga tungumáli, tungumáli heyrnarlausra. Ég tek undir að það hefur verið mjög ánægjulegt að verða vitni að því í þingsalnum þegar hún flytur ræður sínar.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hennar að það er mjög nauðsynlegt að finna haldgóða lausn á málefnum þeim sem getið er um í frumvarpinu, raunar báðum frumvörpunum því að sá bandormur sem fylgir frumvarpinu segir ekki síst töluverða sögu. Það er augljóst að það er víða sem þetta kemur við sögu og víða þarf að taka til í löggjöfinni þar sem bara hér í bandorminum eru þó nokkur lög sem gera þarf breytingar á. Það eru t.d. lögin um fangelsi og fangavist, breytingar á lögum um meðferð einkamála, meðferð opinberra mála, lög um aðför, lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, breyting á stjórnsýslulögum, breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, útvarpslögum, lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þetta segir mikla sögu, þessi bandormur, hversu víða þurfi að taka á og hversu margþætt þetta mál er. Auðvitað er þetta mikið mál en það þarf sína umræðu til þess að það náist sem best niðurstaða í því.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu lengur. Ég óska að lokum Sigurlín, (Forseti hringir.) hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur sérstaklega til hamingju með að hafa flutt þetta mál. Hæstv. forseti. Þetta sýnir að hún stendur manni orðið hjarta nær að svo margir skuli gleyma því að ávarpa hana fullu nafni. Ég tek undir það að hv. þingmenn í þingsalnum eiga auðvitað að biðjast afsökunar á því. Ég tel að ástæðan sé sú hvað hún er orðin manni hjartkær, hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir. Ég ítreka það að lokum að ég óska henni sannarlega til hamingju með þetta mál og vona að það nái góðu brautargengi í hv. menntamálanefnd þar sem það kemur til umfjöllunar.