133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[18:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp þótt það sé þess efnis að í rauninni ætti umræðan að vara þar til það er orðið að lögum. Við erum ekki að fást hér við frumvörp tæknilegs eðlis, þetta er fyrst og fremst spurning um mannréttindi.

Ég fékk um daginn bréf frá gamalli vinkonu minni, sem er heyrnarlaus, þar sem hún rakti gang mála í æsku, frá skólagöngu sinni og hvernig hún hefði í reynd verið svipt tækifæri til menntunar vegna þess að táknmálið var ekki viðurkennt sem mál hennar. Ég kem eiginlega óundirbúinn í pontu til að tala fyrir hönd hennar og barna framtíðarinnar sem við megum ekki svipta tækifærum til menntunar og til lífsbjargar. Ég tala einnig fyrir hönd okkar allra í samfélaginu sem viljum búa í menningar- og mannréttindasamfélagi. Þjóðfélag sem ekki virðir rétt allra þegna sinna getur ekki kallað sig mannréttindasamfélag.

Þess vegna legg ég til að þessi frumvörp verði hið allra fyrsta gerð að lögum um leið og ég þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir forgöngu hennar í þessu máli.