133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[18:21]
Hlusta

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (U):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég svara þeirri spurningu sem hv. þm. Pétur Blöndal beindi til mín í sambandi við tæknimálin. Ég horfi alltaf mest á táknmálið, ég er ekkert að horfa á tæknina, hvað er til hverju sinni. Auðvitað veit ég að tæknin er til, en táknmálið er lífið og verður það áfram. Tæknin er alltaf að bregðast okkur. Þess vegna verðum við að treysta á táknmálið.

Auðvitað er tæknin af hinu góða, og t.d. væri kærkomið fyrir okkur ef Ríkisútvarpið setti texta á sjónvarpsefni. Ég held að þeir ættu að einbeita sér að því, það er tæknin sem við eigum að nýta okkur.

Að lokum langar mig að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa komið, stutt mál mitt og setið og fylgst með mér flytja málið. Ég hef ekki setið hér til að punkta niður hvað þau hafa sagt, alls ekki, en þetta mál er svo sjálfsagt, það er mannréttindamál sem öll þjóðfélög heims eiga að styðja. Það skiptir ekki máli hvort við erum rík þjóðfélög eða ekki, þetta á bara að vera í lagi. Þetta eiga að vera sjálfsögð réttindi hvers einstaklings. Við sem erum sögð vera öryrkjar getum gert svo margt ef við fáum einfaldlega tækifæri til þess. Tækifærið er hér, ég er hér, blindur maður er hérna, og við getum haldið áfram að vinna að þessu. Núna verðum við bara að horfa til framtíðarinnar, ekki rífast um hver eigi heiðurinn af þessu eða hinu málinu. Þetta frumvarp er gott, við eigum bara að samþykkja það, fólkið á að samþykkja það. Fyrir því er ég að berjast vegna þess að ég vil fá að njóta lífsins og ég vil fá þann rétt í lög.

Ég segi bara enn og aftur: Ég þakka þeim sem studdu mig og vona að eitthvað gerist í framtíðinni. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þessu máli lyktar.