133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[18:39]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna tollkvótana. Þeir voru einu sinni teknir upp. Einu sinni var algjörlega bannað að flytja inn landbúnaðarvörur til Íslands. Síðan voru opnaðar svona glufur og hleypt inn ákveðnu magni af kjöti og grænmeti til landsins. Í staðinn fyrir að veita innflutningsleyfi og leyfa mönnum svo að selja leyfin var ákveðið að ríkið gerði það sjálft og seldi á uppboði.

Spurningin er að sjálfsögðu: Hversu miklu magni hleypum við inn? Ef við mundum hleypa inn ótakmörkuðu magni mundi að sjálfsögðu verð tollkvótanna fara niður og verðið nálgast heimsmarkaðsverð á viðkomandi vöru. Spurningin um það er því: Hvenær erum við búin að opna nægilega mikið til þess að lækka verð innan lands? Ég sé það sem lausn á þessu, þ.e. að auka kvótana, fjölga því sem flytja má inn þannig að það hafi áhrif á verð innan lands.

Ég held að það sé ákveðin þróun í gangi sem íslenskur landbúnaður þarf að búa sig undir, að þessir tollkvótar verði auknir. Þá lækkar líka verðið á tollinum sem menn eru tilbúnir til að borga. Þar með vex samkeppni á þessum markaði innan lands. Þetta held ég að sé þegar farið að gerast í ostum og í grænmeti en ekki kannski eins mikið í kjöti, án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega nýverið. En þarna bjóðast tækifærin, þ.e. í að auka kvótann.