133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[18:55]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil segja hér nokkur orð varðandi nefndarálit um lög um virðisaukaskatt og þá breytingartillögu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lagt fram. Ég hafði kvatt mér hljóðs fyrr í dag en féll þá frá orðinu og ég geri mér grein fyrir því að það er orðið nokkuð áliðið þannig að ég ætla ekki að lengja mál mitt enda hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — og ég vísa þá sérstaklega til orða Kolbrúnar Halldórsdóttur sem fór í raun og veru með það í ræðu sem ég vildi draga fram. En ég vil minna á þá ábyrgð sem við höfum og horfa ekki eingöngu á virðisaukaskattinn og þær aðgerðir sem verið er að fara í, bæði virðisaukaskattinn og vörugjöldin, og vera nú ekki kaþólskari en páfinn og líta á þetta eingöngu út frá tæknilegu sjónarhorni og einföldunar ef við erum með því vísvitandi að leiða til lélegri heilsu, bæði tannheilsu og heilsu margra barna og unglinga.

Ég vil, hæstv. forseti, láta það koma fram að auðvitað fögnum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði því að verið er að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Það er vonandi, og við hvetjum til þess að smásalan sýni mikla ábyrgð í þessu máli og komi þeim virðisaukaskattslækkunum sem verið er að framkvæma alla leið til neytenda og geri gott betur. Mér finnst margar blikur vera á lofti hvað varðar álagningu á ýmsar vörur, því að í þeirri veröld sem markaðshyggjan lifir og hrærist í og núverandi stjórnarliðar hrærast í, þar sem markaðurinn og samkeppnin eiga að ráða og halda niðri vöruverði, þá hefur það sýnt sig að þróunin hefur verið í þá átt að á mörgum sviðum hefur samkeppni leitt til fákeppni í okkar fámenna landi og erfitt að segja til um það hvort sú staða sem við búum við í dag hafi leitt til vörulækkunar, hvort það sé ekki einmitt hátt vöruverð sem þrífst vegna fákeppni á markaðnum. Því er það ósk okkar allra að það verði ekki bara neytendur sem verði að fylgjast grannt með heldur verði ábyrgðinni alfarið varpað yfir á þá sem með málið fara, þ.e. innflytjendur og smásöluaðila.

Hvað varðar þá breytingartillögu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flytur hér vil ég ítreka að það þýðir ekki að setja sér heilbrigðismarkmið og markmið um bætta lýðheilsu, horfandi síðan upp á þjóðina og þá sérstaklega unglinga fitna og þyngjast eins og er að gerast í nágrannalöndum okkar án þess að bregðast við. Það er ýmislegt í umhverfi okkar, lifnaðarháttum, menningu og atvinnu foreldra og þeim hraða sem er í þjóðfélaginu í dag sem veldur því að ýmislegt hefur farið úr böndunum, t.d. að börn eru meira ein heima, þau hreyfa sig minna og mörg hver borða því miður óhollari mat. Það er ljóst að gosdrykkjaþamb hefur aukist, sérstaklega hjá ungum drengjum, ungum mönnum, og samhliða sjáum við stóraukna glerungseyðingu hjá börnum og ungmennum og tannskemmdir, þannig að þetta fer saman. Það eru sérstaklega gosdrykkirnir sem eyða glerungi.

Þegar við horfum svo á að það eru sömu börnin, sömu unglingarnir sem búa við krappari kjör, og það eru foreldrar þeirra sömu barna og unglinga sem ekki hafa efni á því að fara með þau til tannlæknis, þá erum við að horfa upp á stóran hóp barna sem, þegar til lengri tíma lætur, mun verða undir hvað varðar tannheilsu, hvað varðar þjóðfélagslega stöðu og mér finnst það ábyrgðarhluti að horfa ekki á þetta heildrænt. Að vera kaþólskari en páfinn þannig að skilja ekki eftir virðisaukaskattslækkunina á gosdrykki og eins vörugjaldið, að leggja út á þá braut að lækka vöruverð á gosi meira en á öðrum vörum, vitandi það hvaða áhrif þetta hefur.

Sem foreldri veit ég að það eru margir foreldrar sem hafa áhyggjur af gosdrykkjaþambi barna sinna, en þau ráða ekki við gosneysluna, ekki þegar verðið er eins og það er í dag, hvað þá þegar það lækkar, þá verður þambið enn meira. Þetta getum við sagt okkur, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með verðstýringu á vörum sem leiða til lélegri lýðheilsu eins og áfengis og tóbaks, og það eru leiðbeiningar sem við eigum að taka alvarlega. Þetta mun koma í bakið á okkur þegar við erum að tala um tekjur og útgjöld ríkisins því að útgjöld heilbrigðisþjónustunnar eiga eftir að verða meiri og koma í bakið á okkur þegar tímar líða. Við þurfum því að hafa heildarsýn, við þurfum að hafa samþætta ábyrgð og þetta er samfélagslegt verkefni sem við þurfum að taka á hér en ekki varpa ábyrgðinni yfir á foreldranna. Það má kalla það forsjárhyggju, ég kalla þetta heilsuvernd, ég kalla þetta forvarnir, ég kalla þetta aðgerðir til að efla lýðheilsu. Ég kalla þetta að fara eftir manneldismarkmiðum og ég kalla þetta slysavarnir.

Ég tel að börn og ungmenni í dag eigi það skilið að við hugsum um heilsu þeirra en hugsum ekki eingöngu út frá reikningskúnstum og að útreikningurinn sé auðveldari en ella.