133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:24]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur að við erum sammála í þessu máli og við erum sammála á þann veg sem ég lýsti í ræðu minni. Þingmaðurinn notaði hér orðalagið að hræra í þessum potti og ég vil eiginlega heimfæra þessi ummæli á hv. þingmann og hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson. Þau hafa verið að hræra í ákveðnum potti til þess að stimpla formann Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson og fleiri, með óæskilegum stimpli í pólitísku áróðursskyni.

Það er nefnilega þannig að í gildandi lögum er meginregla að útlendingar sem koma hingað til dvalar eða vinnu þurfi að framvísa fullgildu heilbrigðisvottorði. Það er líka meginregla í útlendingalögum, eins og hér má sjá í reglugerðinni, að menn framvísi sakavottorðum þannig að þegar formaður Frjálslynda flokksins nefndi þetta tvennt í ræðu sinni á landsþingi flokksins í janúar var hann einfaldlega að undirstrika stefnu sem er í gildandi lögum. Ég tel fráleitt að ætla að reyna að klína á formann Frjálslynda flokksins einhverjum rasistastimpli, manni sem er giftur pólskri konu, þó að hann hafi nefnt þetta og berkla sem hann er kunnugur vegna þess að hann veit að smitandi berklar eru landlægir á ákveðnum stöðum, m.a. í Póllandi, og honum er umhugað um heilbrigði þeirra sem hingað koma, bæði útlendinga og Íslendinga. Ég vil bara biðja hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur að láta af því að hræra í þessum fordæmingarpotti.