133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að ýmislegt hefur breyst frá því að lögin voru sett þó að þau séu ekki gömul. Meðal annars hefur komið upp sú vá sem við getum kallað heimsvá, yfirvofandi hætta á heimsfaraldri fuglaflensu, inflúensu og eins farsóttum af ýmsum toga. Til viðbótar hefur bæst við ótti manna af hryðjuverkum og efnum sem notuð eru í þeim tilgangi með eiturefnum og geislavirkum efnum. Því er augljóst að svið sóttvarnalæknis og þar af leiðandi breyting á sóttvarnalögum þarf að taka tillit til slíkra aðstæðna. Eins eru sjúkdómar sem geisa í heilum álfum og aðrir á heimsvísu eins og alnæmi, bólusótt og fleiri viðvarandi sjúkdómar og spurning hvort hægt sé að halda þeim sjúkdómum í skefjum eða hindra heimsfaraldur. Það hefur því margt breyst hvað varðar sjúkdómana sem slíka. Þar má m.a. nefna fuglaflensuna sem er alltaf að skjóta upp kollinum og nú síðast í Bretlandi tegund veiru sem er í dýrum og fuglum og hefur borist í menn. Það er bara spurning hvort hún stökkbreytir sér þannig að hún berist á milli manna og geti þar með valdið heimsfaraldri sem menn óttast, rétt eins og svarti dauði á sínum tíma. Því er full ástæða til að styrkja vel og rækilega stöðu sóttvarnalæknis og allra viðbragða hér á landi og almannavarna í þessu sambandi.

Hin hlið málsins snýr að embættinu sem slíku en þar er gert ráð fyrir að draga úr óvissu eða stjórnarlegri stöðu sóttvarnalæknis sem nú er undir landlæknisembættinu. Ég tel að fara þurfi nokkuð vel yfir það mál hvort ástæða sé til að gera sóttvarnalækni eða embættið alveg að sérstöku og sjálfstæðu embætti sem heyrir beint undir ráðherra eða hvort hægt sé að skýra stöðu sóttvarnalæknis mun betur undir embætti landlæknis eins og er í dag. Þá er ég að hugsa til þess að í eðli sínu mun embætti sóttvarnalæknis ekkert breytast þó að það yrði sjálfstæð stofnun, er ég þá bara að horfa á starfsemina og ábyrgðina. Hugsanlega er í dag hagræðing og sparnaður af því að samnýta skrifstofu og starfsmenn. En ég geri mér grein fyrir að allar boðleiðir þurfa auðvitað alltaf að vera skýrar, sérstaklega ef vá ber að höndum, þá er það enn mikilvægara. Þá má ekki vera neinn vafi á því hver ber t.d. ábyrgð á innkaupum á bóluefni, vörum eða hver staða sóttvarnalæknis er gagnvart landlækni. Þetta verður að vera skýrt.

Ég vil, hæstv. forseti, óska eftir því að farið verði vel yfir málið í heilbrigðis- og trygginganefnd. Úr því að þessar hugmyndir eru fram komnar skil ég mjög vel hvað varðar svið sóttvarnalæknis að það þurfi að víkka og fara þurfi að tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar og eins tilskipunum Evrópusambandsins um svið sóttvarnalæknis. En hvað varðar stöðu embættisins hefði ég óskað eftir því að frumvarpið hefði komið fyrr fram til að skoða málið betur og átta sig á í hverju annmarkar sóttvarnalæknis innan landlæknisembættisins eru fólgnir. Eru þetta einhverjir persónulegir hnökrar eða er þetta alfarið stjórnsýslulegt? Hefur eitthvað komið upp á sem verður til þess að menn telja að þetta gangi ekki eins og þetta er í dag? Er hægt að skýra einfaldlega betur stöðu sóttvarnalæknis í embættinu og kosta þá ekki til nýja stofnun, sem hlýtur alltaf að vera dýrara, auk þess gæti líka komið til tvíverknaðar ef sóttvarnalæknisembættið yrði gert að sérstakri stofnun. Við verðum líka að horfa til þess að með því erum við að veikja landlæknisembættið. Nú kann að vera að þetta sé hið eina rétta og hjá því verði ekki komist. Þá verða menn auðvitað að taka því, en ég hefði, hæstv. forseti, viljað að við hefðum meiri tíma til að fara yfir þennan þátt málsins. Ég veit ekki hvenær sá tími á að vera til því stuttur tími er eftir af þinginu. Þrír nefndardagar eru eftir og ekki nema sex þingdagar ef við förum eftir dagskrá þingsins. Ítarleg yfirferð á þessum málum og fleirum er ekki til staðar á þessu þingi.

Ég tel að breytingar sem þessar, þegar verið er að breyta starfsemi og setja á nýjar stofnanir, þurfi nokkuð góða skoðun. Nú getur vel verið að þetta sé búið að vera einhvern tíma í undirbúningi og búið sé að fara vel yfir þetta í ráðuneytinu, en ég hef ekki orðið vör við umræðuna fyrr en núna. Ég óska því eftir, hæstv. forseti, að farið verði yfir stjórnskipulega þáttinn eins vel og unnt er og þá þeim þætti frekar frestað en að fara út í eitthvað sem full sátt er ekki um.