133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins árétta ákveðna hluti sem komu fram í andsvörum áðan þannig að það lægi fyrir eins skýrt og hægt er. Ég nefndi það að hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir hefði haft það á orði að Frjálslyndi flokkurinn væri að daðra við rasisma. Ég hef ekki þau ummæli við hendina og ætla ekki að halda því fram og vil a.m.k. leiðrétta það þangað til annað sannara kemur í ljós en ég er með ummæli frá hv. þingmanni sem voru látin falla í pistli hjá Ríkisútvarpinu 6. febrúar og ég vildi lesa hér, með leyfi forseta:

„Um síðustu helgi stigu Frjálslyndir skrefi lengra í andúð sinni. Þeir hættu að daðra við andúð á útlendingum og ákváðu að ganga alla leið. Það kom greinilega fram í setningarræðu Guðjóns Arnars, formanns flokksins, sem talaði á þann veg að auka og ala á ótta fólksins í landinu við fólkið sem hingað kemur í atvinnuleit. Ég ætla ekki að endurtaka hér ógeðfelldan boðskap formanns Frjálslyndra …“ o.s.frv.

Þetta vildi ég láta koma fram og um leið fagna því að hv. þingmaður hefur lýst því yfir úr ræðustól að hún geri ekki athugasemdir við málflutning formanns Frjálslynda flokksins í þessum málum heldur hafi það verið ummæli annarra einstaklinga sem eru ekki á þingi fyrir flokkinn og ég veit svo sem ekki hverjir eru og veit ekki hvaða ummæli það eru sem hv. þingmaður hefur gert athugasemdir við. Það er önnur umræða og er sjálfsagt að taka hana ef þingmaðurinn er með þau ummæli og vill fara yfir þau hér eða síðar.

Ég vildi alla vega láta þetta koma fram vegna yfirlýsinga hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur um það að hún væri sammála formanni Frjálslynda flokksins og ég fagna því, menn geta séð sig um hönd, vegna þess að sá kafli sem ég las upp úr pistlinum er náttúrlega alveg fráleitur og styðst ekki við nein rök. Ég vænti þess að nú sé þessu máli lokið af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins og þeir ræði um málefni útlendinga á eðlilegum og sanngjörnum nótum eins og gert var fyrr í umræðunni. Það kom fram að við værum sammála um þau meginatriði í íslenskri löggjöf, bæði í útlendingalögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, sem kveða á um að þeir sem hingað koma í atvinnuleit og til dvalar framvísi fullnægjandi heilbrigðisvottorði og sakavottorði og í frumvarpinu sem hér er til umræðu, um breytingar á sóttvarnalögum, er í raun og veru verið að færa yfir í þann lagabálk þessi meginsjónarmið úr lögunum um atvinnuréttindi útlendinga.