133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vildi víkja að og spyrja um varðandi þetta frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum. Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Þuríður Backman, hefur farið efnislega yfir einstök atriði hér við 1. umr.

Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um er um kostnaðarhliðina. Ég get ekki séð annað en að verið sé að auka í á ýmsan hátt, verið er að stofna eitt formlegt embætti sem er sóttvarnalæknir, síðan er verið að stofna ný ráð og búa þarna til nokkurt umfang í starfi. Það má vel vera að þess þurfi. Auk þess er verið að tilgreina þarna ýmis ný verkefni á sviði sóttvarna sem ætlunin er að falli undir þessi nýju lög og það má vel vera að það sé allt saman gott og blessað, ég vona það. Ég vil ekki draga úr því að haldið sé uppi mjög öflugum sóttvörnum hér á landi, hvort heldur þær lúta að fólki eða búfénaði, grösum eða náttúru landsins, að gætt sé fyllsta öryggis til að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar berist til landsins, hvort heldur það er í gróður, búfé eða fólk. Ég legg áherslu á það og einnig að öll þessi þjónusta sé í opinberri forsjá og ekki einkavædd eða boðin út.

Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að í frumvarpinu sé lagt til að í sóttvarnalögum verði stjórnsýslustaða sóttvarnalæknis skýrð með ótvíræðum hætti, að aukinn verði viðbúnaður gegn farsóttum og ýmislegt er tíundað sem þarna er verið að auka í en í lokin segir:

„Að óbreyttu hefur hvorki samþykkt frumvarpsins né gildistaka reglugerðarinnar áhrif á útgjöld ríkissjóðs“.

Því er ég ekki sammála og held einfaldlega að sé rangt. Við höfum oft fengið svona umsagnir frá fjármálaráðuneytinu um kostnað vegna nýrra laga og nýrra breytinga sem hafa engan veginn staðist. Ég nefni t.d. Landbúnaðarstofnun sem hér er vitnað til. Þegar umsögn kom frá fjármálaskrifstofunni um Landbúnaðarstofnun og hvað hún kostaði var það miklu lægri upphæð en síðar varð raunin og reyndar fjarri öllum raunveruleika. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er það einnig hennar meining að þessi lög kosti ekki neitt? Mér finnst ekki rétt að segja slíkt þegar við vitum að það er rangt en lögin geta verið jafnnauðsynleg fyrir því og þau ákvæði sem þarna eru tiltekin en ég get ekki fallist á að hægt sé að fullyrða það eins og fjármálaráðuneytið gerir hér að að óbreyttu hafi samþykkt frumvarpsins engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Það er bara ekki rétt og því á ekki að segja það. Slíkt sýnir bara óvönduð vinnubrögð að mínu mati, frú forseti.